Þessi dagur hefur aldeilis verið skemmtilegur! Morguninn gekk sinn vanagang, en eftir hádegi fórum við í stutta göngu í sumarbústaðalandinu og síðan í þrautakóng á heimleiðinni. Við heimkomuna biðu okkar strangar starfsstúlkur, sem skipuðu stúlkunum að fá sér sæti í matsalnum og fylla út upplýsingar fyrir vegabréf. Síðan var bundið fyrir augu stúlknanna og þær leiddar um ævintýraland, sem starfsfólkið hafði útbúið í herbergjunum. Ég get ekki sagt nánar frá því, vegna hættu á leka til þeirra sem eiga eftir að upplifa svona sælu hjá okkur í framtíðinni. Ég bið foreldra að fá frekari upplýsingar hjá stúlkunum þegar þær koma heim. Það er mjög gaman að lesa pistlana saman og skoða síðan myndirnar, því það er svo margt sem rifjast upp fyrir stelpunum, sem ég hef ekki náð að skrifa um.

Eftir drekkutímann var síðan haldin hárgreiðslukeppni, þar sem margar skemmtilegar hárgreiðslur voru framkvæmdar. Síðan var tilvalið að fara í heita pottinn í sól og blíðu sem komin er aftur hingað í Ölver eftir tveggja daga fjarveru. Það voru stúlkurnar í Fuglaveri sem sáu um skemmtiatriðin á kvöldvökunni núna. Kvöldkaffið er alltaf vinsælt og síðan bjuggu stúlkurnar sig fyrir svefninn. Á meðan verið var að lesa fyrir þær á herbergjum komum við og töldum þær, fengum að skoða í töskur og byggðum upp spennu. Þær vissu að við værum að leita einhvers. Að lokum bað ég þær allar að fara í sokka og koma inn í matsal, þar sem alvarlega var talað við þær um það að það væri okkar verkefni að sjá um fjör og sprell, en ekki þeirra. Okkur barst síðan miði þar sem í ljós kom að pizzubotnum veislukvöldsins hafði verið stolið! Þær fengu vísbendingu sem þær þurftu að finna lausn á innan landareignarinnar…á náttfötunum. Svona leystu þær öll verkefnin sem lögð voru fyrir þær og botnarnir komu í ljós. Þá ákváðum við að halda upp á það með því að skella upp náttfatapartýi sem stendur enn þegar þessi orð eru rituð. Þau fara hugsanlega ekki alveg strax á netið og því gæti verið komin ró á þegar þið lesið þessi orð.

Góða nótt og megi góður Guð gefa okkur öllum góðan dag að morgni.
Ása Björk, forstöðukona í Ölveri.