Dagur 1.
Það voru spenntar stúlkur sem stigu upp í rútuna á Holtaveginum. Þær brostu hringinn, enda vissu þær að framundan væru mikil ævintýri í Ölveri. Kvíðnir foreldrarnir veifuðu ungunum sínum þegar rútan lagði af stað. Nú var ferðin hafin fyrir alvöru.
Þegar komið var á áfangastað var stúlkunum skipt niður í herbergi og eru þær 6-7 saman. Því næst var boðið til hádegisverðar þar sem stúlkurnar gófluðu í sig býsnunum öllum af grjónagraut og ostabrauði. Eftir mat buðu starfsstúlkurnar upp á gönguferð um svæðið þar sem tiplað var á öllu því helsta sem Ölver hefur upp á að bjóða. Kaffitíminn kom fyrr en varði, sem og íþróttakeppnir og skotbolti í íþróttahúsinu. Í kvöldmat var plokkfiskur og brauð og borðuð flestar stúlkurnar mjög vel (reyndar hafa nokkrar haft það á orðið að þær geri ekkert hérna nema borða).
Að loknum löngum og viðburðaríkum degi var haldin fjörug kvöldvaka með söng, leikjum, ljónaveiðum og hugleiðingu.
Stúlkurnar skriðu upp í ból um kl:20:45 og þær allra síðustu voru sofnaðar um kl:22.

Lella forstöðukona