Það voru sælar stúlkur og foringjar sem vöknuðu niðri í laut eftir að hafa sofið alla nóttina undir berum himni. Við hinar, sem flutt höfðum okkur inn yfir nóttina vorum þó reynslunni ríkari. Mikið bragðaðist bleiki hafragrauturinn vel eftir langa nóttina! Í dag var þema eldhússins bleikt og var bleiki liturinn í ýmsu í máltíðum dagsins. Margar okkar klæddust einhverju bleiku vegna þemans. Eftir fánahyllingu var tiltekt á herbergjum og síðan Biblíulestur. Þar var mikið sungið og síðan lærðu stúlkurnar að fletta ritningartextum upp í Biblíunni. Það gekk mjög vel og sumar hafa greinilega gert það áður.

Skipt var í brennóliðin og fyrsta umferð mótsins var leikin. Liðin í þessum flokki heita eftir Astrid Lindgren persónum, s.s. Lína, Kalli á þakinu og Ronja. Stúlkurnar borðuðu vel af kjötbollunum og síðan fékk hvert herbergi miða með fyrirmælum um verkefni sem stúlkurnar áttu að vinna saman. Þetta var fyrsta verkefnið í Survivor leik dagsins. Stúlkurnar leystu verkefni sín vel af hendi og mættu svangar í kaffitímann. Þá var þeim sagt að vandræði hefðu komið upp, því bakkelsið hefði allt horfið og þær fóru út í skóg að leita þess. Þær fundu að lokum allt sem þær þurftu fyrir drekkutímann. Þær tókust á við fleiri verkefni og margt skemmtilegt var gert.

Stúlkurnar í Lindaveri æfðu atriði fyrir kvöldvökuna sem tókust mjög vel. Eftir ávaxtabita og vel heppnaðan dag fóru stúlkurnar að búa sig fyrir svefninn og bænakonur þeirra fóru með þeim inn á herbergi.

Með kærri kveðju úr sælunni í Ölveri.
Ása Björk, forstöðukona.