Gærdagurinn var bjartur og fagur hérna í Ölveri. Léttskýjað og smá gola. Við skiptum okkur í hópa eftir morgunmat og morgunleikfimi. Einn hópurinn lærði að búa til endurunnin pappír. Það tókst mjög vel og var blómum, lituðum pappír og blaðaúrklippum bætt við til skreytingar. Annar hópur samdi lag og texta sem var svo fluttur á kvöldvöku um kvöldið. Þriðji hópurinn fór út í íþróttahús í tjáningar og traustleiki. Í hádeginu bauð matráðskona upp á steiktan fisk sem rann ljúflega niður. Á samverustund fengum við að heyra söguna um óskirnar tíu. Í frjálsa tímanum var boðið upp á göngu sem var vel sótt. Aðrar bjuggu til síróð úr fíflablómum sem eru hér út um allt. Við tíndum 1.5 kg af fíflum og urðum heiðgular á höndunum. Svo var farið í heitapottinn. Við borðuðum ávaxtasúrmjólk í kvöldmat og svo var haldið á kvöldvöku. Eitt herbergið byrjaði með skemmtilegu leikriti um misheppnaða tilraun sveitastúlku til að mála sig. Svo var sungið og farið í leiki. Stúlkurnar sofnuðu fljótt eftir annasaman dag.
Í dag ætlum við meðal annars að velja okkur listgrein til að vinna með og setja sírópið í krukkur. Meira um það síðar.
Sálm. 27:14. Vona á Drottinn, ver öruggur og hugrakkur, já, vona á Drottinn.