Stúlkurnar voru vaktar fremur seint með flautuhljómum í blíðskaparveðri; úti var glampandi sól og hlýtt. Eftir hollan morgunverð voru hefbundnir dagskrárliðir fram að hádegi, en í matinn var bayoneskinka með öllu tilheyrandi og borðuðu stúlkurnar mjög vel eins og fyrri daginn. Eftir hádegi var stóri hoppukastalinn tilbúinn í fjörið og var vel nýttur. Eftir andlitsmálun hélt skrúðgangan af stað og var gengið á milli sumarbústaðanna hér rétt fyrir neðan, en sumar stúlknanna fóru með foringjunum niður í átt að vegi til að gleðja akandi vegfarendur.
Í kaffitímanum var bökunarstúlkan búin að baka brauðbollur og brjálæðislega fánatertu sem ætti að vera sýnileg á myndunum hér, með rice-crispies fánastöng og ekkert fór til spillis! Þá tók hoppukastalinn aftur við en fljótlega kom kandýflossvél og gleðin var mikil. Með stútfulla maga léku stúlkurnar sælar í góða veðrinu, þrátt fyrir að sólin væri komin í felur. Við enduðum síðan daginn með kvöldvöku og leikritum eftir að hafa grillað okkur pylsur og sykurpúða við lítil grill á mölinni niðri í lóð.
Í alla staði fyrirtaksdagur og gullmolarnir fóru sáttir í bólin.

Með kærri ættjarðarkveðju héðan úr Ölveri,
Ása Björk forstöðukona.

p.s. Vegna tæknivanda koma myndir dagsins ekki inn fyrr en að morgni.