Nú er annar dagur að kveldi kominn og margt skemmtilegt hefur verið brallað. Stúlkurnar voru mjög góðar og áhugasamar í Biblíulestrinum og formleg brennóboltakeppni hófst í íþróttahúsinu. Eftir vel heppnaðan kjötbolluhádegisverð var farið í gönguferð inn með Blákolli, fjallinu okkar, og flestar stúlkurnar gengu aðeins upp í fjallið. Einnig fannst hellingur af berjum og bláar varir voru víða.

Eftir kaffið var íþróttakeppnin, en í dag var keppt í hanaslag og jötunfötu. Heiti potturinn er alltaf vinsæll, nokkuð var um hárgreiðslur eftir pottinn og einnig hlustuðum við á tónlist og sumar perluðu. Kakósúpa og smurbrauð var í kvöldmatinn og síðan tók kvöldvakan við. Stúlkurnar í Skógarveri voru búnar að æfa leikrit og undirbúa leiki sem þær komu með á kvöldvökuna. Einnig var mikið sungið og þær heyrðu söguna um Jesú og Sakkeus.

Eftir kvöldbitann höfðu stúlkurnar sig til fyrir svefninn. Er þær voru komnar inn á herbergi var slegið upp náttfatapartýi og mikið dansað! Góður dagur og frábært kvöld.

Góða nótt héðan úr Ölverinu okkar,
Ása Björk forstöðukona.