30 hressar stelpur voru mættar á svæðið í gær. Þegar þær höfðu komið sér fyrir í herbergjunum fóru þær í könnunarleiðangur um svæðið en hlupu heim í hús að honum loknum undan HAGLÉLI! Eftir kaffi var dagskrá úti í leikskála þar sem þær lærðu m.a brennó. Í kvöldmatinn var steiktur fiskur, kartöflur og grænmeti og síðan var haldin kvöldvaka undir stjórn foringjanna. Þar var sungið, farið í leiki og hlustað á sögu. Stelpurnar voru ótrúlega góðar að fara að sofa og var komin ró kl.23 sem er mjög óvanalegt á fyrsta kvöldi.
Í morgun voru stúlkurnar vaktar kl.9, þær borðuðu morgunmat, hylltu fánann, fóru á biblíulestur, þar sem þær lærðu að fletta í Nýja testamentinu, og fóru í brennókeppni. Í hádegismat fengu þær hakk og spaghetti sem þær borðuðu með bestu lyst. Eftir matinn tóku herbergin sig saman, bjuggu til plaköt, fundu sér merki, sömdu heróp og bjuggu til búninga og héldu svo út í ratleik. Núna eftir kaffi eru þær úti í íþróttahúsi í boltakasti og köngulóahlaupi en fá svo að fara í heita pottinn. Við vonum að það snjói ekki á þær á meðan! Í kvöld verður að venju haldin kvöldvaka þar sem eitt herbergið sér um að skemmta hinum.
Allt hefur sem sagt gengið vel og allir eru hressir og kátir. Nú vonum við bara að sólin fari að láta sjá sig ;o)

Kær kveðja,
Erla Björg, forstöðukona