Það voru 32 hressar stelpur sem hófu 4.flokk í dag. Við komuna var þeim raðað í herbergi. Þær eru 8 saman í herbergi og það virðist ætla að ganga vel. Þær fengu aspassúpu og brauð í hádegismat. Þær virtust nú ekkert sérstaklega svangar enda flestar búnar að borða töluvert af nammi. Eftir hádegismatinn fóru þær í gönguferð um svæði Ölvers og í leiki inni í íþróttahúsi.
Eftir gönguna fengu þær miðdegismat og þær borðuðu mjög vel. Eftir kaffitímann fóru þær út í íþróttahús þar sem þær lærðu brennó og spiluðu nokkra æfingaleiki. Hér er mikið rok en nokkrar stelpur hafa klætt sig vel og farið út á stultur og í aparóluna, hengirúmið og fleira. Öðrum finnst meira spennandi að vera inni í hlýjunni að lesa, lita eða perla.
Í kvöldmatinn fengu stelpurnar steiktan fisk og kartöflur í matinn og þær borðuðu mjög vel af honum. Kvöldvakan var svo sjálfsögðu á sínum stað en þar fengu stelpurnar smá forsmekk að veislukvöldinu en foringjarnir sýndu eitt leikrit, voru með hreyfileiki og auðvitað sungu þær hástöfum öll frábæru Ölverslögin okkar.
Bænakonurnar eru komnar inn á herbergin en hvert herbergi hefur einn foringja sem sér um að koma stelpunum í ró á kvöldin. Foringjarnir lesa fyrir þær og biðja með þeim kvöldbænirnar og sitja svo hjá þeim á meðan ró færist yfir hópinn. Það er alltaf einn foringi á næturvakt sem fer ekki að sofa fyrr en allar stelpurnar eru sofnaðar.
Dagurinn í dag hefur gengið mjög vel og stelpurnar eru ótrúlega þægilegar og góðar.
Ég set inn fleiri fréttir á morgun.

Kveðja,
Þóra Jenny, forstöðukona.