Dagur 4
Ölversmeyjarnar voru vaktar 08:30 í morgun og voru allflestar sprækar og hressar. Eftir morgunmatinn var fáninn hylltur og svo hófst Biblíulestur dagsins.
í hádeginu fengu þær ljúffengan fisk úr ofni en svo var haldin fjölbreytt og frumleg hæfileikasýning þar sem margar af stúlkunum stigu á stokk og létu ljós sitt skína. Eftir sýninguna var farið í brennó og spennandi brennóúrslit áttu sér stað í íþróttahúsinu.
í kaffinu voru snúðar og bleik kaka og eftir að hafa borðað vel af góðgæti var farið í skemmtilegan ratleik úti í bleytunni. Stelpurnar skemmtu sér vel og unnu vel saman sem lið þar sem markmiðið var að hafa rétt svör á sem flestum spurningum sem bæði fjölluðu um Ölver og Biblíuna.
Á kvöldvökunni sungum við saman og stúlkurnar léku fyndin og skemmtileg leikrit sem þeim hafði tekist að æfa fyrr í dag.
Eftir kvöldkaffi háttuðu stelpurnar sig og fóru upp í rúm tilbúnar fyrir síðustu nótt flokksins og líklega spenntar að komast heim þrátt fyrir ógleymanlega, þroskandi, og síðast en ekki síst skemmtilega upplifun í Ölveri.
Takk fyrir afdrifamikinn dag.