Nú er dagur tvö í 6.flokki að renna sitt skeið. Það hefur verið mikið að gera í dag og stúlkurnar eru orðnar þreyttar.

Sttúlkurnar voru allar vaknaðar vel fyrir kl. 8 í morgun en vakning var ekki fyrr en 8:30. Þær voru því orðnar sársvangar loksins þegar morgunmaturinn var kl. 9. Það er hafragrautur í boði ásamt kornflexi og cheeriosi og súrmjólk. Eftir morgunmatinn var fánahylling og þær fóru inn til að ganga frá í herbergjunum sínum fyrir hegðunarkeppnina. Fljótlega var blásið á biblíulestur þar sem þeim var sagt frá sögu Ölvers auk þess sem þær fengu fræðslu um Jesú og Guð. Eftir biblíulesturinn var brennókeppnin á sínum stað og hádegismatur fljótlega að henni lokinni.

Eftir hádegismatinn var ákveðið að fara í fjallgöngu og það gekk ljómandi vel. Margar nenntu reyndar ekkert að fara upp fjallshlíðina og ákváðu að tína ber í staðinn. Þegar heim var komið gafst þeim tími til að æfa fyrir hæfileikakeppnina sem var á dagskránni seinnipartinn. Kl. 3 var svo blásið í kaffitíma. Hæfileikakeppnin var strax á eftir kaffitímanum og það voru mörg skemmtileg atriði á dagskránni. Eftir hana voru nokkrar greinar í íþróttakeppninni. Tvö herbergi æfðu leikrit fyrir kvöldvökuna, Fjallaver og Hlíðarver. Það gekk mjög vel fyrir sig.

Kvöldmatur var kl. 18:30 og þær borðuðu mjög vel af grjónagraut og brauði. Kvöldvakan var á sínum stað og hvort herbergi var með þrjú atriði, tvö leikrit og einn leik. Það gekk mjög vel hjá öllum stelpunum. Við fengum svo að heyra stutta hugleiðingu út frá Guðs orði. Ávextir, háttun og tannburstun var á sínum stað og núna eru bænakonurnar að lesa fyrir stúlkurnar. Myndirnar koma inn aðeins seinna í kvöld.

Við sendum bestu kveðjur heim,

Þóra Jenny forstöðukona.