Komið þið sæl.

Þá er degi eitt í 4.flokki að ljúka. Hér eru 26 stelpur sem njóta dvalarinnar. Þær komu á svæðið í hádeginu og var skipt í herbergi. Vegna þess hversu fáar þær eru þá eru bara herbergin á neðri hæðinni í notkun. Eftir að þær komu sér fyrir þá var dýrindis grjónagrautur og brauð í hádegismat. Þær fóru svo með foringjunum í gönguferð um svæðið og samhristingsleiki niðri á fótboltavelli.

Eftir kaffi var íþróttakeppni þar sem þær kepptu meðal annars í hliðarhlaupi og jötunfötu. Í kvöldmat fengu þær kjötbollur, kartöflumús og brúna sósu. Ein af stelpunum sagði þetta í í matartímanum: „þetta eru sko langbestu kjötbollur í heimi, þær eru sko miklu betri en mamma gerir!“ 🙂

Eftir kvöldmatinn var kvöldvaka þar sem foringjarnir skemmtu stelpunum með leikritum og svo sungu þær auðvitað nokkur góð Ölverslög. Þær fengu að heyra hugleiðingu út frá Biblíunni, að þessu sinni lærðu þær um gullnu regluna. Ávextir biðu þeirra þegar kvöldvöku lauk, þær burstuðu tennur og fóru inn í rúm. Það er alltaf mikil spenna að bíða eftir bænakonunni á fyrsta kvöldinu. Hver foringi „á“ sitt herbergi sem hann sér um að koma í ró á kvöldin. Bænakonan spjallar við stelpurnar og les fyrir þær ásamt því að biðja með þeim fyrir svefninn. Við höfum þann háttinn á hér í Ölveri að bænakonurnar fara ekki út úr herbergjunum fyrr en komin er alveg ró í herbergið og helst sem flestar sofnaðar.

Við reynum að setja myndir inn í kvöld og það koma fréttir inn daglega frá okkur.

Með bestu kveðju,

Þóra Jenny, forstöðukona.