Góðan daginn!

Dagurinn í gær var mjög góður. Vakning kl. 9 (þær voru samt flestar vaknaðar þegar ég mætti til að vekja) og morgunmatur hálftíma síðar. Engin fánahylling vegna veðurs. Á biblíulestri lærðu þær um nokkra áhugaverða einstaklinga í Biblíunni, til dæmis Abraham, Davíð konung, líkþráa manninn og fleiri sem urðu á vegi Jesú. Þær voru mjög duglegar að hlusta. Eftir biblíulestur fóru þær í brennó og svo inn í hádegismat.

Hárgreiðslukeppnin var á dagskrá eftir hádegi enda frekar leiðinlegt veður hjá okkur aftur í gær, leiðinda rok og rigning af og til. Þær skemmtu sér vel í keppninni og það komu margar skemmtilegar greiðslur út úr þessu (myndir eru komnar inn).

Eftir kaffi var íþróttakeppni, keppt í boltakasti og að reyna að húlla sem lengst. Þær fóru svo í heita pottinn og sturtu og Lindarver undirbjó skemmtiatriði fyrir kvöldvöku. Þær borðuðu vel af kvöldmatnum, sem var skyr og brauð.

Kvöldvakan gekk vel, leikritin hjá Lindarveri tókust vel og þær hlustuðu á hugleiðingu um að Guð svarar bænum okkar en ekki alltaf eins og við höldum að hann geri. Þær fengu svo ávexti áður en þær fóru inn að tannbursta og hátta. Það gekk mjög vel að sofna í gærkvöldi og komin ró í húsinu um 11-leytið.

Ég set inn aðra færslu frá þessum degi í kvöld. Eigið góðan dag!

Þóra Jenny, forstöðukona.