Það voru aldeilis hressar stelpur sem vöktu okkur starfsliðið í morgunsárið. Venjulega er þetta nú öfugt hér í Ölveri, starfsliðið vekur þ.e.a.s. börnin. Nú var það hins vegar öfugt enda litlu títlurnar óvanar að sofa í herbergi með mörgum og spennandi að fá alla á fætur til að geta hafið ævintýri dagsins. Það var ekkert annað að gera en að flýta morgunmat um hálftíma – og það gerðum við! Hefðbundinn morgunmatur í Ölveri samanstendur af vali um súrmjólk, cornflakes, cheerios eða hafragraut og gátu því allir fundið eitthvað við sitt hæfi og farið frá borðinu saddir og tilbúnir í daginn.

Eftir morgunmat hófst mikil tiltekt í herbergjunum enda höfðu stelpurnar verið kynntar fyrir hegðunar- og snyrtikeppninni sem er fastur liður eins og venjulega hér í Ölveri. Þá eru herbergjunum gefnar stjörnur fyrir svefnró annars vegar og tiltekt í herbergjum hins vegar. Öll herbergin stóðu sig vel.

Á biblíulestri morgunsins fjölluðum við um Jesú, hver hann var, hvað hann kenndi og hvað við getum lært af honum. Stelpurnar sáu myndasögu um miskunnsama samverjann og lærðu þannig mikilvægi þess að sýna hvorri annarri hjálpsemi.

Eftir biblíulesturinn hófst brennókeppni flokksins. Brennóliðin voru Barbie, PetShop, Pony og Polly Pocket og eftir kennslu gærdagsins gekk allt eins og í sögu.

Í hádegismat fengu börnin kjötbollur og kartöflumús og höfðu margar þeirra á orði að þetta væri “ótrúlega góður matur.” Birgðirnar af sælgæti eru greinilega eitthvað minni en í dag og borðuðu sumar stelpnanna marga diska af þessum frábæra mat. Mátlega mettum var okkur ekkert að vanbúnaði og búnar aukafötum og handklæðum örkuðum við allar niður að á – þrátt fyrir að veðrið væri ekki alveg eins og við höfðum búist við. Ferðin var skemmtileg. Sumar dýfðu tánum í ánna og aðrar fóru á bólakaf, hvort heldur sem er viljandi eða óviljandi! Allar skemmtu sér konunglega.

Eftir kaffitíma, þar sem boðið var upp á nýbakað úr eldhúsinu okkar, var hefðbundin eftirmiðdagsdagskrá: íþróttakeppni (sipp og hliðarhlaup voru greinar dagsins), heitur pottur og undirbúningur kvöldvöku. Eftir kvöldmat buðu svo Skógarver og Hlíðarver upp á bráðfyndna kvöldvöku sem lauk á því að Karítas foringi fjallaði um fyrirgefningu við hópinn. Þá loks var þessum viðburðaríka degi lokið og tími kominn til að hátta.

Stelpurnar hafa verið mjög ánægðar í allan dag. Lítið er um grát eða leiðinlegar uppákomur yfir daginn og greinilegt að þær njóta sín vel í dagskránni sem hér eru boði og eru að mynda góð tengsl við bæði foringjana og hin börnin. Nokkuð hefur þó verið um tár þegar kemur að því að leggja höfuðið á koddan. Það er ekki óvanalegt og sérstaklega ekki þegar börnin eru lítil og hafa kannski ekki oft farið að heiman. Hér er þó enginn skortur á þolinmæði eða umhyggju og því höfum við sem betur fer getað leyst þetta þannig að öllum líði vel þegar þeir sofna.

Myndir: http://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157634879024026/