Héðan úr listaflokki er allt gott að frétta. Dagurinn í gær var algjör dásemd. Allt gekk eins og í sögu og stelpurnar voru ekki lengi að koma sér fyrir, og allar eru þær í herbergi með þeim sem þær óskuðu eftir. Við fengum súpu og brauð þegar við komum áður en við fórum í gönguferð um svæðið, og ekki veitti af þeirri kynningu þar sem margar stelpnanna eru að koma í Ölver í fyrsta sinn. Eftir göngu var brennóið kennt, en alla morgna keppa stelpurnar í brennó og er oft mikill æsingur og gleði í þeim leikjum. Á veisludag keppir svo sigurliði við starfsmenn Ölvers.

Eftir kaffi var svo boðið upp listasmiðju, þar sem hægt var að þæfa ull, vatnslita og útbúa óróa. Seinnipartinn nýttum við svo til útiveru enda var veðrið æðislegt. Kvöldvakan var fjörug og voru skemmtiatriðin í höndum Fjallavers og Fuglavers þetta kvöldið. Það voru því sáttar og þreyttar stúlkur sem sofnuðu milli 23 og 24 í gærkvöldi og engin heimþrá,ótrúlegt en satt!

17. júní hófst með látum þar sem stelpurnar voru vaktar með söng og tilheyrandi. Allar sögðust þær hafa sofið vel, enda ekki annað hægt í sveitasælunni. Eftir morgunmat var fánahylling, tiltekt og biblíulestur. Á biblíulestri fjölluðum við um Biblíuna og hin ýmsu tákn í kristinni trú. Það er frábært hve stelpurnar hlusta vel og taka vel undir í söng. Svo er heilmikil dagskrá í vændum eftir hádegismat sem við segjum ykkur frá síðar.  Erum að vinna í að koma myndum til ykkar, svo þið getið bara látið ykkur hlakka til, því þær koma fyrr en síðar.

Kveðja

Petra, forstöðukona og allir hinir 🙂