Í gær vöknuðum við spræk sem aldrei fyrr og tókumst á við verkefni dagsins. Við fórum á Biblíulestur og lærðum um boðorðin 10 og sungum saman. Eftir Biblíulestur fórum við svo að sjálfsögðu í brennóið áður en við fengum okkur regnbogaskyr í hádegismat. Eftir hádegi komumst við að því að Hilmari foringja hafði verið rænt og fórum við því að leita að honum. Við eltum slóð upp að fjalli þar sem við hittum tröllkonu sem hafði rænt honum. Tröllkonan lét börnin leysa verkefni til að frelsa Hilmar og við héldum upp á það með því að grilla sykurpúða. Eftir kaffi héldum við áfram í listasmiðju, fórum í pottinn og á hoppudýnu.

Þegar verkefnum dagsins var lokið var svo komið að veislukvöldverði, þar sem stelpurnar borðuðu Ölversborgara, spariklæddar og glaðar. Eftir mat var veislukvöldvaka, þar sem starfsmenn sáu um fjörið. Stelpurnar skemmtu sér konunglega yfir hinum ýmsu leikritum og má svo sannarlega segja að gleðin hafi ríkt hér í gærkvöldi. Eftir kvöldvöku og kvöldkaffi fór hvert herbergi með sinni bænakonu/manni inn á herbergi til að spjalla, biðja og lesa. Stelpurnar sváfu svo vært eftir frábæran veisludag.

Í dag ætlum við svo að nýta síðasta daginn okkar í ýmislegt. Foringjar munu keppa við sigurlið í brennóleik, við ætlum í ratleik og bralla ýmislegt áður en við höldum lokastundina okkar, þar sem verðlaun verða veitt fyrir hinar ýmsu keppnir, Ölverslagið 2014 verður flutt og við munum skemmta okkur saman í síðasta sinn þetta sumarið.

Það er von okkar að stelpurnar hafi notið dvalarinnar, safnað dýrmætum minningum, lært heilmikið um Guð, eignast nýjar vinkonur og komi glaðar heim. Við hlökkum svo til að fá þær aftur næsta sumar. Við munum koma heim á Holtavegið um kl. 18:00, þreytt en glöð.

Kær kveðja, Petra og starfsfólk Ölvers.

 

14457734644_13c88a27b8_o