Ævintýradvölin í Ölveri hefst vel. Herbergjaskipan gekk ljómandi vel og allir ánægðir með sín herbergi og herbergisfélaga. Við fengum blómkáls- og brokkolísúpa og brauð með áleggi í hádegismatinn þegar allir höfðu komið sér fyrir. Eftir hádegismatinn var farið í fjársjóðsleit Ölvers, en nokkrir sjóræningjar höfðu heyrt af góðum fjársjóði hér. Fjársjóðurinn hafði að geyma popp og sleikjó. Svo fóru stelpurnar í æfingabrennókeppni og í íþróttakeppnir, þar sem keppt var í stígvélakasti og kóngulóahlaupi. Í kvöldmatinn fengum við gott hakk og spagetti sem ráðskonan töfraði fram. Kvöldvakan var á sínum stað og stóð fyrir sínu, söngur, glens og gaman. Eftir hana var bænakonuleit, þar sem herbergin fóru út í leit að bænakonunni sinni. Það standa sig allir mjög vel og skemmta sér vel saman.