Stúlkurnar voru vaktar kl 9 en reyndar var nú ekki þörf á því þar sem þær voru allar vaknaðar, tilbúnar að takast á við ævintýri dagsins. Eftir morgunmat var biblíulestur þar sem fjallað var um boðorðin 10, umferðareglurnar og reglur lífsins. Þá var komið að brennókeppni og eftir mikla hreyfingu var kærkomið að koma inn í hádegismat.  Eftir hádegi var farið í íþróttahúsið og keppt í kóngulóagangi, brosi og Einari (sem er að hoppa á öðrum fæti). Eftir kaffi kom Helga Vilborg kristniboði í heimsókn til okkar, kenndi okkur söng og sagði okkur frá því þegar hún bjó í Eþíópíu.

Jafnvel þó við höfum töluverðan vind hér í dag þá var mikil spenna að fá að fara í pottinn, stelpurnar í Hlíðarveri og Skógarveri fengu að fara fyrstar í pottinn þar sem þær þurftu tíma til að æfa leikrit  fyrir kvöldvökuna sem var stuttu eftir kvöldmat. Eftir kvöldvökuna voru þær sendar í bólið en fljótlega eftir það braust út mikill hávaði, þá var komið náttfatapartí og mikli kátína með það. Dansað var við lög úr Frozen,  eurovision lög og fleiri lög og þær virtust nú flestar vera með lögin á hreinu.  Eftir nokkra dansa fengu allar frostpinna og svo var farið upp í rúm og bænakonurnar komu og lásu fyrir þær og fóru með bænirnar.  Flestar voru síðan sofnaðar um klukkan ellefu.

Við höfum átt í basli með að senda inn myndir en þær koma vonandi í dag.

Bestu kveðjur frá okkur úr Ölveri