Dagurinn í Ölveri var frábær. Það rigndi mikið á okkur en stelpurnar létu það alls ekkert á sig fá.

Fyrir hádegi var dagurinn með hefðbundnu sniði: Morgunmatur, fánahylling, herbergjatiltekt, Biblíulestur og brennó.

Í hádegismatinn voru kjúklingabollur og hrísgrjón. Eftir hádegismat fórum við svo í „Survivor“ keppni. Þá voru herbergi saman í liði og hvert lið átti að byrja á því að búa til fána og nafn á liðið sitt. Að því loknu fóru liðin út (í grenjandi rigningu) og bjuggu til skýli fyrir sig einhversstaðar á svæðinu. Skýlin voru vægast sagt frábær hjá öllum liðum. Öll liðin höfðu skipulagt skýlin sín vel og notað til þess alls kyns dót sem þær höfðu tínt til. Síðan komu leiðtogar og fóru yfir öll skýlin og mátu hversu vel þau höfðu verið uppbyggð. Stelpurnar lifðu sig mjög mikið inn í leikinn þrátt fyrir að allar hefðu þær verið rennandi blautar eftir úrhellisrigningu, en þær eru svo sannarlega alltaf með sól í hjarta.

Eftir kaffitímann var síðan keppt í fáránleikunum og þá máttu þær vera búnar að útbúa sig einhvernvegin fáránlega. Meðal greina sem keppt var í var: tímaskyn, halda tóni, selahlaup og öskurkeppni.

Þær borðuðu vel af skyri og brauði og héldu svo beint á kvöldvöku. Kvöldvakan var í góðum höndum Fjallavers og Skógarvers. Í lok kvöldvöku fengu síðan allar stelpurnar að vita hver var þeirra leynivinur síðasta 1 og hálfan sólarhringinn. Leynivinaleikurinn hefur gengið mjög vel og ansi fallegar, handgerðar gjafir hafa litið dagsins ljós.

Með kærri kveðju og þökk fyrir dásamlegar stúlkur,

Þóra Björg