Þjóðhátíðardagurinn var haldinn hátíðlegur í Ölveri og voru stelpurnar vaktar með „Hæ hó og jibbí jei“ um kl. 9 í morgun. Flestar voru hins vegar vaknaðar þrátt fyrir að hafa verið nokkuð lengi að sofna kvöldið áður, enda mikill spenningur hjá hópnum. Í morgunmat var boðið upp á ekta heimalagaðan hafragraut, sem var ansi vinsæll, og svo þetta klassíska; seríos, kornfleks, súrmjólk og mjólk. Eftir morgunmat var haldið í fánahyllingu. Hér í Ölveri er fáninn hylltur hvern einasta dag en það var einstaklega viðeigandi á þjóðhátíðardaginn okkar. Stelpurnar fengu svo smá tíma til að taka til í herbergjunum sínum því herbergjunum eru gefnar stjörnur í svokallaðri hegðunarkeppni sem snýst um að vera stilltur og duglegur að fara að sofa á kvöldin og hafa fínt og snyrtilegt í herbergjunum. Það er heilmikill farangur og dót í herbergjunum því í hverju herbergi eru átta stúlkur. Þær læra því að sinna um herbergin sín og ganga frá eftir sig. Að því loknu var haldið í biblíulestur þar sem þær lærðu að fletta upp í Nýja Testamentinu, fundu og lásu vers og hugleiddu hvað þau þýddu. Því næst var fyrsta brennókeppnin en stelpunum var skipt í nokkur lið sem heita eftir íslenskum hljómsveitum. Eftir svolítinn frjálsan tíma var boðið upp á dýrindis hádegisverð, kjúklingarétt með hrísgrjónum og ferskt grænmeti. Að hádegisverði loknum fengu allar dömurnar íslenskan fána málaðan á kinnina og svo fór öll strollan í skrúðgöngu í sumarbústaðahverfinu hér í kring. Veðrið var milt og í skrúðgöngunni slapp hópurinn við rigningarúðann sem hefur einkennt þennan dag. Á miðri leið var stoppað og haldin þjóðhátíðarljóðasamkeppni milli herbergja. Hægt var að fá bónusstig fyrir að nota orð eins og húrra, jibbí jei, spennandi, fáni, Ölver o.fl. Úr þessu komu fimm stórflott ljóð og verða sigurvegar krýndir í lok viku. Um kaffileytið var kominn mikill spenningur í stelpurnar því heyrst hafði að rosaleg 17. júní kaka væri í undirbúningi. Mikil leynd hvíldi yfir öllu í eldhúsinu og harðlokað þangað inn. Stelpurnar reyndu allt hvað þær gátu að gægjast inn þegar hurðin opnaðist. Þegar loksins var blásið í lúðurinn og hópurinn streymdi inn í matsal hófust mikil fagnaðarlæti því búið var að töfra fram alveg risavaxna 17. júní íslenska-fána súkkulaðiköku og vöfflur. Dagskráin var ekki af verri endanum eftir kaffi því þá tók við gifsgrímu gerð. Stelpurnar mættu í hollum, eitt og eitt herbergi í einu, og gerðu gifsgrímur á hver aðra. Grímurnar eru algjör listaverk, en stúlkurnar fá að mála þær og skreyta síðar í vikunni. Eftir allt sullið fengu þær að fara í pottinn og skola af sér. Sólin skein því miður ekki en það var bara hressandi fyrir þær að fá nokkra dropa á sig í heita pottinum. Á meðan grímugerðinni stóð var restin af hópnum uppi í sal, hlustaði á músík og bjó til flott armbönd og hálsmen úr allskonar perlum. Úr urðu glæsilegir skartgripir og voru þær mjög hugmyndaríkar í þessu. Ekki gafst tími fyrir tvö herbergi að gera grímur svo verkefnið heldur áfram á morgun. Í kvöldmat var boðið upp á pylsur og gos og virtist hópurinn vel svangur eftir daginn því pylsurnar þutu út eins og heitar lummur. Eftir kvöldmat fóru þrjú herbergi í pottinn, sem ekki höfðu náð því fyrr um daginn. Kvöldvakan var skemmtileg, mikið sungið og glensað. Skógarver og Fjallaver voru með skemmtiatriði, bæði fyndin og skemmtileg leikrit og leiki fyrir hinar stelpurnar. Þegar allar stelpur voru búnar að bursta og komnar upp í koju heyrðist allt í einu mikill hávaði, barið var í potta og pönnur og sungið hástöfum „Hæ hó og jibbí jei og jibbí jei, það er komið NÁTTFATAPARTÝ“. Músíkin ómaði úr salnum uppi og allar stúlkur brunuðu upp í partýið. Þar var dansað, farið á ljónaveiðar, foringjar voru með leikrit og að lokum fengu allar íspinna og heyrðu sögu. Því næst var svo farið að sofa, hver bænakona fór með sínum stelpum inn í herbergi, las og kom öllum í ró. Það gekk vel hjá stelpunum að sofna enda þreyttar eftir dagskrá dagsins. Lítil sem engin heimþrá og flestar sofnuðu um leið og þær lögðust á koddann. Þjóðhátíðardagurinn hefur því svo sannarlega verið viðburðarríkur og stórskemmtilegur með þessum yndislegu stelpum hér í Ölveri.

Með góðri kveðju.
Salvör Þórisdóttir, forstöðukona

Nýjar myndir hér: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157654664770142/