Þá er runninn upp heimferðardagur í Ölveri. Sólin skín og veðrið er alveg hreint yndislegt. Það voru allar stúlkur í húsinu steinsofandi þegar þær voru vaktar í morgun enda þreyttar eftir stórgóðan Veisludag í gær. Í morgunmat var að venju boðið upp á kornfleks, seríos og hafragraut. Stelpurnar voru sólgnar í hafragrautinn og þurfti að útbúa risastóran aukaskammt fyrir svangar stelpur. Eftir morgunmat var farið í fánahyllingu í síðasta sinn þessa vikuna og svo fóru dömurnar beint inn að pakka niður og ganga frá. Í biblíulestri sungu stelpurnar Drottinn er minn hirðir og rifjuðu upp lærdóm vikunnar um Jesús. Því næst brunaði hópurinn út í íþróttahús þar sem fram fór svokallaður Foringjabrennó, en þar keppti sigurlið brennókeppninnar við foringjana og svo fengu allar 40 stelpurnar að keppa við foringjana. Foringjarnir sigruðu bæði Pollapönk og allar 40 stelpurnar. Í hádegismat var boðið upp á grjónagraut og brauð með osti, skinku, smurosti og mysingi. Eftir hádegismat fóru allar stúlkurnar út í góða veðrið, hoppuðu á hoppukastaladýnunni, fóru í aparóluna, hengirúmið og léku sér með sippubönd stultur o.fl. Stuttu fyrir brottför var svo ein allsherjar verðlaunaafhending þar sem veitt voru verðlaun fyrir hinar ýmsu keppnir sem fram hafa farið hér í Listaflokki. Sælar og glaðar stelpur stigu upp í rútuna í dag eftir yndislega og skemmtilega viku hér í Ölveri. Takk fyrir að leyfa okkur að kynnast þessum frábæru dömum sem hafa svo sannarlega verið til fyrirmyndar og gert þessa viku ógleymanlega fyrir okkur öll. Sjáumst svo á næsta ári í Ölveri!

Með kveðju frá öllu starfsfólki Ölvers,
Salvör Þórisdóttir, forstöðukona