Dagurinn hófst á morgunverði og fánahyllingu. Á biblíulestri töluðum við um jafnrétti og stelpurnar drógu leynivini en leikurinn verður í gangi í tvo daga. Í dag var síðasti hluti brennó keppninnar en sigurliðið keppir við foringjanna síðasta daginn. Í hádegismat var kornflexkjúklingur, hrísgrjón og kokteilsósa. Eftir hádegismat var íþróttakeppni þar sem keppt var í kóngulóahlaupi og hopi á öðrum fæti. Næst fóru stelpurnar í ævintýragang þar sem þær hittu m.a. Elsu úr Frozen og strump. Í kaffi var sjónvarpskaka og bollur og strax eftir kaffi var hárgreiðslukeppni þar sem stelpurnar sýndu mikla hæfileika. Í kvöldmat var hamborgari og kartöflubátar sem stelpurnar  borðuðu af bestu lyst. Á kvöldvökunni var Lindarver með skemmtiatriði og allir skemmtu sér vel. Um það leyti sem við vorum að fara í kvöldkaffi birtist einn foringinn í búning og kynnti hermannaleik. Stelpurnar fóru því og hlupu um skóginn frá hermönnum en markmiðið var að komast í svo kallaðar flóttamannabúðir. Þegar leiknum var lokið fengu stelpurnar ljúfenga klessuköku og fóru svo sáttar að sofa. Á morgun er veisludagur og þess vegna fá þær að sofa aðeins lengur en venjulega.

 

Hafdís Maria