Dagurinn í gær var frábær eins og allir aðrir dagar hér í Ölveri. Eftir hádegismat fórum við í svokallaðan „Ævintýragang“ þar sem stelpurnar eru leiddar inní ævintýraheim sem er í senn pínu hrikalegur en líka spennandi og skemmtilegur. Þar mættu þær m.a ógnvekjandi sjóræningja, norn, þyrnirós og trúði. Allar komust þó heilar á húfi í gegn og höfðu gaman af.

Eftir gómsætan kaffitíma var blásið í hárgreiðslukeppni þar sem fram fór mikil og frumleg sköpun. Þá var farið í heita pottinn fyrir þær sem vildu.  Í kvöldmat var svo ávaxtasúrmjólk og brauð.

Á kvöldvökunni skemmtu tvö herbergi hinum með leikritum og leikjum en eftir hana var blásið óvænt í náttfatapartý. Þar var ýmislegt brallað, dansað, farið á ljónaveiðar og síðan fengum við skilaboð frá illræmdum bananabræðrum sem höfðu stolið íspinnunum. Bananarnir áttu eftir að leika stórt hlutverk en eftir svolitla leit fundust íspinnarnir á þvottasnúrunum og bananabræður þurftu að játa sig sigraða.

Í dag fengu stelpurnar að sofa aðeins lengur. Þær eru búnar að fara á Biblíulestur það sem kærleikurinn var aðalhlutverki en í dag ætlum við að vera með gegnumgangandi kærleiksþema. Þær lærðu dæmisöguna um miskunnsama Samverjann og við ræddum um mikilvægi þess að mæta öllum með kærleika og sýna öðrum virðingu. Loks drógu þær leynivin en leynivinaleikurinn verður í gangi þar til á sunnudag þegar þær fara heim.

Í dag verða svo haldnir Ölversleikar og hæfileikakeppni.

Kær kveðja héðan

Erla Björg forstöðukona