Eftir hádegi í dag fórum við í gönguferð niður að læknum. Við vorum vel búnar enda var rigning. Stelpurnar fundu fullt af fallegum steinum í læknum og nutu þess að leika sér í náttúrunni. Lækurinn er grunnur en svolítið straumþungur á sumum stöðum og því mjög gaman að vaða í honum. Flestar voru í stígvélum og pollafötum. Sumar freistuðust til að setja tærnar útí því þó að það ringdi var frekar hlýtt. Við fengum sykurpúða áður en við héldum aftur heim, flestar blautar en sælar. Þegar heim var komið hafði Hildur bakari skreytt kökur fyrir okkur af mikilli snild og stelpurnar stóðu á öndinni yfir því. Það voru líka skinkuhorn og það var gott að fá sér vel að borða eftir gönguna. Eftir kaffi gerðum við krossa sem eru eins og úr steindu gleri. Flestar stelpurnar hér eru miklir dundarar og sköpunargleðin fær að njóta sín þegar rými er gefið fyrir það að sitja og föndra. Í kvöldmat var kakóspúpa en í hádeginu hafði verið kjúlklingaréttur sem þær voru mjög ánægðar með. Kvöldvakan var fjörug að vanda, mikið sungið og hlegið. Hamraver og Lindaver voru með leiki og leikrit sem voru mjög skemmtileg. Við heyrðum líka dæmisöguna um húsið sem var byggt á bjargi. Eftir kvöldvöku máttu þær sem vildu koma sér vel fyrir með sængur og dýnur og horfa á bíómynd í kvöldvökusalnum. Þær sem ekki höfðu áhuga á því fóru að perla og föndra. Bænakonurnar fóru inní herbergin þeirra rétt fyrir kl. 11. Flestar bænakonurnar eru að lesa framhaldssögur, eða að segja sögur og fara í einfalda leiki. Svo eru bænirnar beðnar og þær sitja inni hjá þeim þar til þær sofna.

Hér eru nýjar myndir.