Það voru 46 glaðar og spenntar stúlkur sem komu til okkar í gær. Aðeins nokkrar þeirra hafa komið áður svo flestar eru að kynnast staðnum í fyrsta sinn. Stelpunum var safnað saman inní matsal þar sem starfsfólkið kynnti sig og fór yfir helstu reglur og mikilvægar upplýsingar áður en þeim var raðað niður í herbergi. Eftir að stúlkurnar höfðu komið sér fyrir var hádegismatur, grænmetisbuff og kúskús. Því næst var skoðunarferð um svæðið og hópurinn hristur saman með skemmtilegum leikjum. Kaffitíminn var á sínum stað með heimabökuðu bakkelsi, bananabrauði og kanilsnúðum. Féll það mjög vel í kramið. Eftir kaffitímann hófst brennókeppnin. Við skiptum stelpunum í lið og þær munu keppa á hverjum degi, þetta er ein af hefðunum hér á bæ 😉 Tvö herbergi æfðu svo leiktir fyrir kvöldið en hinar stelpurar dunduðu sér við að gera vinabönd, teikna eða perla. Þær hafa líka verið sérstaklega duglegar að vera úti og notið sín út í náttúrunni. Í kvöldmatinn voru fiskibollur, hrísgrjón og karrýsósa og borðuðu þær einstaklega vel. Þá var blásið í kvöldvöku, þar var sungið, leikrit voru sýnd og farið var í leiki. . Stelpurnar fengu svo kvöldhressingu og bænakonurnar (foringinn sem sér um ákveðið herbergi) komu inn til stelpnanna, lásu fyrir þær og báðu með þeim bænir. Ró var komin á um kl.23.30 en einhverjar voru lengi að sofan eins og eðlilegt er á nýjum stað.

Í dag vöknuðu þær hressar, sumar mjög snemma enda spennandi dagur framundan. Dagurinn í dag hefur verið góður, þær fóru á rólega morgunstund, í brennó og nú er að koma að hádegismat. Dagurinn í dag verður svo stútfullur af ævintýrum, furðuleikum og heitum potti. Meira síðar 😉

Bestu kveðjur héðan úr Ölveri

Erla Björg Káradóttir

Myndir komnar inn frá fyrsta degi: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157683476360810

https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157683476360810