Eftir góðan nætursvefn voru stelpurnar vaktar klukkan 8:30. Í morgunmat var hægt að fá sér ljúffengan hafragraut, morgunkorn og súrmjólk. Eftir að hafa borðað vel var farið út í fánahyllingu. Við leggjum áherslu á góða umgengni í herbergjunum þannig að stelpurnar fá góðan tíma til að gera fínt hjá sér og fá síðan umsögn frá foringja.

Á biblíulestri dagsins sungum við skemmtilega söngva og ræddum um bænina og mikilvægi hennar. Eftir biblíulesturinn var haldið út í íþróttaskála þar sem foringjarnir kenndu stelpunum Brennó en það er boltaleikur sem er alltaf spilaður í Ölveri.

Í hádegismat voru fiskibollur og soðnar kartöflur ásamt grænmeti. Stelpurnar borðuðu vel enda svangar eftir brennóið. Eftir mat var síðan farið í ýmsa leiki á fótboltavellinum.

Í kaffitímanum var hvorki meira né minna en afar gómsæt súkkulaðikaka og nýbökuð skinkuhorn. Gaman að sá hvað stelpurnar eru duglegar að borða enda er það nausynlegt til þess að hafa orku í alla skemmtunina sem í boði er. Eftir kaffi var svo komið að því að fara í heita potinn, þær sem það vildu. Einnig var í boði að gera vinabönd ásamt því að vera í frjálsum leik á yndislega svæðinu okkar hér í Ölveri. Það var mikil útivera í dag enda glampandi sól og varla ský á himni. Þó gáfu þau herbergi sem áttu að sjá um skemmtiatriði á kvöldvökunni sér tíma til þess að æfa fyrir það.

Í kvöldmat var boðið uppá kakósúpu og kornflögur en þessi samsetning slær í gegn hér í Ölveri.  Kvöldvakan var mjög skemmtileg, stelpurnar eru farnar að læra mörg af lögunum sem við syngjum og  eru duglegar að taka þátt í söng og hreyfingum. Mikið var hlegið að góðum leikritum og hlustað á hugleiðingu foringja sem í kvöld fjallaði um fyrirgefninguna. Þessar stelpur eru svo sannarlega einstaklega duglegar og áhugasamar þegar kemur að því að hlusa á hugleiðingar og sögur.

Í kvöldkaffi fengu stelpurnar epli og appelsínur og síðan var notaleg stund inná herbergjum með bænakonu sem situr hjá stelpunum þar til þær sofna. Allar stelpurnar sofnuðu á góðum tíma enda er frábær dagur að baki.

Tíminn líður og á morgun er komið að sjálfum veisludeginum. Á þeim degi er margt skemmtilegt um að vera og alveg á hreinu að það verður nóg að gera hjá öllum.

Myndir eru komnar á síðuna hér undir flipanum ljósmyndir og koma nýjar á hverjum degi.

Kveðja Svava Sigríður Svavarsdóttir, forstöðukona