Í dag var sko gert margt skemmtilegt! Á morgunstund klipptu stelpurnar út hjörtu og skrifuðu niður hæfileika sýna á hjörtun. Hjörtun sem við gerðum í gær og í dag er búið að hengja á vegg og verður lokaniðurstaðan mynd af Ölveri. Að lokinni morgunstund voru stelpurnar annaðhvort að föndra sína eigin fána fyrir leikinn á móti Nígeríu, spila brennó og svo fengu allar að klippa brjóstsykur sem við bjuggum til. Við gerðum fjórar sortir, jarðarberja, kóla, tutti frutti og lakkrís. Fyrstu þrjár gerðirnar gerðum við í íslensku fánalitunum. Brjóstsykurinn var síðan sparaður þangað til leikurinn byrjaði. Þá gátu þær japlað á íslensku fánalitunum :). Eftir pastasalat með hvítlauksbrauði í hádeginu var föndurstund sem vakti mikla lukku. Stelpurnar fengu allar krukkur sem búið var að taka límmiðana af. Svo notuðu þær sérstakan leir sem var frekar slímkenndur til að skreyta krukkurnar ásamt pappablómum og fallegum pallíettum. Krukkurnar eru nú í gluggakistunum í matsalnum og eru svo flottar að það er stórkostlegt að hafa þær til sýnis í matsalnum! Þær fá að sjálfsögðu að taka þær með heim á sunnudaginn. Leikurinn byrjaði svo klukkan þrjú og var í boði að horfa á hann, halda áfram með krukkurnar eða fara út í brennó. Það var ágætis stemning í fyrri hálfleik en svo dvínaði hún þegar leið á leikinn… Eftir leikinn fengu þau herbergi að fara í pottinn sem slepptu því í gær og tvö herbergi voru með leikherbergi. Á meðan var líka frjáls tími. Í kvöldmat var góður kjúklingaofnréttur og í kjölfarið kraftmikil kvöldvaka. Stelpurnar voru búnar að fá bolina sem þær lituðu og fóru í þá á kvöldvökuna. Þar tókum við síðan upp stutta senu fyrir tónlistarmyndbandið! Myndin sem fylgir fréttinni er tekin þegar við tókum upp senuna. Það gekk síðan vel að fara að sofa, kominn fjórði dagur og þreytan aðeins farin að segja til sín. En stelpurnar voru mjög ánægðar með daginn. Það sem stóð upp úr var brjóstsykurinn, krukkurnar og að fá bolina!