Það voru spenntar og eldhressar stelpur sem mættu í listaflokk í Ölveri í dag. Þegar stelpurnar komu á svæðið hópuðust allar saman í matsalnum. Þar var farið yfir helstu reglur búðanna, starfsfólk kynnti sig og svo var stelpunum raðað í herbergi en herbergin heita Hamraver, Hlíðarver, Lindaver, Skógarver og Fjallaver. Margar stelpur komu einar og eru strax búnar að eignast góðar vinkonur. Þegar allir voru búnir að koma sér fyrir var blásið í lúður og þyrptust þá allar stelpurnar í matsalinn í hádegismat. Þar var boðið upp á heita súpu og smurðar brauðsneiðar með osti, skinku og gúrku. Saddar og sælar fóru stúlkurnar í heljarinnar gönguferð um svæðið, fengu að kynnast því hvað Ölver hefur upp á að bjóða og heyrðu sögur um svæðið. Þá var farið í nafnaleiki og stúlkunum kenndur brennibolti, en á morgun hefst hin margfræga Ölvers-brennókeppni. Stelpunum er þá skipt í lið og keppa hver við aðra og sigurliðið keppir svo við foringjana síðasta daginn. Í kaffinu var svo boðið upp á bananabrauð og rosalega góðar smákökur. Eftir kaffi gátu stelpurnar valið um að læra dans, söng eða leiklist og æfðu þær skemmtiatriði fyrir kvöldvökuna. Í kvöldmat var mjög ljúffengur karrýfiskur með hrísgrjónum og fersku salati. Kvöldvakan hófst með söngvum, en stelpurnar fá að læra heilmörg skemmtileg lög, hreyfingar og jafnvel táknmál hérna í Ölveri. Hóparnir þrír, sem undirbjuggu sig yfir daginn, fluttu virkilega flott atriði. Fyrst var dansatriði þar sem dömurnar dönsuðu vel æfð dansspor. Þar á eftir voru flutt tvö stutt leikatriði þar sem sýndir voru flottir leiklistartaktar og síðan fengum við glæsilegan söng. Stelpurnar höfðu greinilega lagt mikið í þetta og stóðu sig allar sem ein með prýði. Að því loknu fengum við að heyra hugleiðingu um Drottinn, sem passar svo vel upp á okkur öll. Þegar kvöldvakan var búin fengu allar stelpur smá kvöldhressingu, epli og appelsínur, og svo var farið að hátta. Þegar allir voru tilbúnir í háttinn kom upp að öllum bænakonunum hafði verið rænt og stelpurnar þyrftu að sækja vísbendingu um hvar þær væru, niðri við hliðið. Bænakonurnar höfðu þó ekki farið langt og biðu stúlknanna í herbergjunum þegar þær komu til baka. Stelpunum þótti rosalega gaman að hlaupa út í þessa skemmtilegu leit og voru svo duglegar að fara að hátta þegar heim var komið. Aðeins örlaði á heimþrá í hópnum en bænakonurnar góðu sátu hjá þeim þangað til þær sofnuðu. Flestar voru þó glaðar og sáttar en sumar jafnvel of spenntar til að sofna strax. Á endanum komst þó ró yfir hópinn. Þegar þessi frétt er skrifuð er allt kyrrt og hljótt í Ölveri og þessar yndislegu stelpur farnar í draumalandið eftir skemmtilegan fyrsta dag.
Bestu kveðjur
Salvör, forstöðukona