Við komuna í Ölver safnast stúlkurnar saman í matsalnum og heyra hagnýtar upplýsingar um staðinn og kynnast starfsfólkinu. Í framhaldinu er þeim raðað í herbergi. Vinkonur sem koma saman geta þá óskað eftir að fá að deila herbergi en einnig eru margar sem kynnast í rútunni og geta fengið að vera saman. Herbergin eru sex og heita Fjallaver, Fuglaver, Hamraver, Hlíðarver, Lindarver og Skógarver. Fyrsti dagurinn fer almennt í að koma sér fyrir, kynnast hinum stelpunum og skoða sig um á svæðinu. Um kvöldið komast stúlkurnar að því hver verður bænakonan þeirra, en það er sérstakur leiðtogi hvers herbergis, sem les fyrir stúlkurnar á kvöldin, biður með þeim bænir og sér til þess að öllum líði vel og geti sofnað. Stúlkurnar geta einnig leitað til bænakonunnar sinnar yfir daginn, sem og auðvitað annars starfsfólks.

Hver dagur í Ölveri hefst á morgunverði í matsalnum. Stelpurnar eru vaktar um hálftíma fyrr og blásið er í lúður til að gefa til kynna að komið sé að morgunmat. Það á við um alla dagskrárliði, að blásið er í lúður þegar hópurinn á að safnast saman, hvort sem það er í matsalnum eða annarsstaðar. Að morgunverði loknum fara allir út að fánastöng í fánahyllingu því í Ölveri flöggum við dag hvern. Þá er kominn tími til að búa um og ganga frá í herbergjunum því það vilja auðvitað allir fá fullt hús stiga í herbergjakeppninni sem snýst um að vera stilltur og duglegur að fara að sofa á kvöldin og hafa fínt og snyrtilegt í herbergjunum. Það er heilmikill farangur og dót í herbergjunum því í hverju herbergi eru átta stúlkur. Þær læra því að sinna um herbergin sín og ganga frá eftir sig. Síðan er komið að biblíulestri í kvöldvökusalnum okkar á efri hæð hússins. Í biblíulestrinum eru m.a. sungin skemmtileg lög, stúlkunum kennt að fletta upp í Nýja-Testamentinu, sagðar eru sögur af Jesú og farið með bænir. Áður en farið er í hádegismat keppa stúlkurnar svo í hinum margfræga Ölvers brennibolta.

Í hádeginu er boðið upp á góðan heimalagaðan mat. Eftir hádegið er boðið upp á eitthvað skemmtilegt að gera, ýmist úti- eða inniveru, gönguferð, frjálsan tíma, íþróttakeppnir, leiki, o.s.frv. Í kaffinu er ávallt eitthvað gómsætt í boði, nýbakað bakkelsi og brauðmeti fyrir svangar dömur. Eftir kaffi heldur dagskráin áfram og oft er farið í pottinn. Almennt er sá háttur hafður á að herbergin fara hvert og eitt í pottinn saman. Áður en kvöldmaturinn er borinn fram gefst einnig tími fyrir undirbúning skemmtiatriða fyrir kvöldvöku. Í Ölveri sjá stúlkurnar um skemmtiatriði fyrir hópinn og á hverju kvöldi eru eitt til tvö herbergi sem sjá um skemmtunina. Langflestir sýna leikrit eða hafa leiki. Stelpunum gefst þannig tækifæri á að æfa samvinnuhæfni, rækta sköpunargleðina og koma fram. Þær eru yfirleitt mjög spenntar fyrir þessu og njóta sín í botn á sviðinu. Eftir söng og skemmtun á kvöldvökunni fá dömurnar að heyra hugleiðingu og biðja. Að því loknu er kvöldhressing í matsalnum og Ölversstúlkur fara í háttinn. Bænakonur koma inn í herbergin, lesa biðja og ró kemst yfir húsið.

Í Ölveri gefst stúlkum einstakt tækifæri á því að upplifa skemmtilegt sumarævintýri á yndislegum stað, borða hollan og góðan mat, eignast góða vini, láta reyna á hæfileika sína og sjálfstraust og svo margt margt fleira. Við hlökkum til að sjá ykkur í sumar!

STELPUR Í STUÐI

Stelpur í stuði er flokkur sérstaklega ætlaður stelpum á aldrinum 11-13 ára sem eru með ADHD og aðrar skyldar raskanir. Á staðnum verður reynslumikið starfsfólk og sérfræðingar á því sviði. Vönduð dagskrá og að sjálfsögðu verður haldið í Ölvershefðir.

ÆVINTÝRAFLOKKUR

Ævintýraflokkarnir okkar hafa verið gríðarlega vinsælir í Ölveri og færri komist að en vilja. Í þessum flokki fara stelpurnar úr einu ævintýri í annað , mikil dagskrá og brjálað fjör.

LISTAFLOKKUR

Í listaflokki fær sköpunargleðin heldur betur að njóta sín. Þar er lögð áhersla á listir og skapandi starf af ýmsu tagi. Nú verður boðið upp á tvo listaflokka, annars vegar fyrir 8-10 ára og hins vegar 11-13 ára stelpur.

LEIKJAFLOKKUR

Leikjaflokkur er flokkur fyrir stelpur á aldrinum 7-10 ára. Hér er skemmtileg og fjölbreytt dagskrá á ferðinni þar sem allar ættu að finna sér eitthvað við sitt hæfi.

UNGLINGAFLOKKUR

Unglingaflokkur er 7 daga flokkur fyrir stelpur á aldrinum 14-16 ára. Frábær dagskrá í bland við slökun og dekur, útivist og óvæntar uppákomur.

LEIKJANÁMSKEIÐ

Ölver býður upp á leikjanámskeið fyrir börn á aldrinum 6-9 ára sem búsett eru á Akranesi, Borganesi og nánasta umhverfi. Þetta verða sannkölluð ævintýranámskeið í dásamlegu umhverfi og fallegri náttúru.

Rútuferðir verða frá Akraneskirkju kl. 08:30 en foreldrum er einnig frjálst að keyra börnin sín upp eftir og sækja.

Á leikjanámskeiðinu fá börnin hollan og góðan heimilismat, boðið verður upp á morgunmat og heitan mat í hádeginu og síðan verður kaffitími síðdegis áður en haldið verður heim  kl. 16:00 en áætlað er að rútan verði komin aftur að Akraneskirkju um kl.16:30.

 

*FÓKUSFLOKKUR

Fókusflokkurinn verður því miður ekki í boði sumarið 2023 en við tökum vonandi upp þráðinn næsta sumar!

Fókusflokkur er tilvalinn fyrir allar þær sem vilja auka leiðtogafærni sína og hafa jákvæð og góð áhrif á sjálfa sig og aðra. Viðurkenndir markþjálfar hafa umsjón með flokknum. Takmörkuð pláss í boði.