Við bjóðum barnið þitt velkomið í sumarbúðir KFUM og KFUK í Ölveri. Það er markmið okkar að barninu líði sem best í sumarbúðum okkar.

Hér eru nokkrar hagnýtar upplýsingar

1. Farangur

Eftirfarandi upptalning gefur hugmynd um nauðsynlegan farangur: Sæng eða svefnpoki, koddi, lak, regnföt, úlpa, stígvél, vettlingar, húfa, íþróttaskór, nærföt, sokkar, buxur, peysur, betri fatnaður fyrir veislukvöld, sundföt, handklæði, tannbursti, tannkrem og Nýja testamenti. Ekki er þvegið af börnunum í sumarbúðunum.

Við fræðslu í sumarbúðunum er oft stuðst við Nýja testamentið. Það er í góðu lagi að þau börn sem eiga sitt eigið taki það með. Þess ber þó að geta að nóg er til af Nýja Testamentum á staðnum sem hægt er að fá lánuð.

2. Fatamerking

Áríðandi er að merkja greinilega allan farangur og töskur með símanúmeri þátttakenda. Föt og aðrar eigur þátttakenda eru á ábyrgð þeirra sjálfra og verða ekki bættar ef eitthvað glatast eða skemmist. Gott er að gera nákvæman lista yfir farangur barnanna til að auðvelda þeim að pakka niður til heimferðar.

3. Óskilamunir

Hægt er að vitja óskilamuna í Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK við Holtaveg 28. Eftir 1. október áskilja sumarbúðirnar sér rétt til að ráðstafa ósóttum óskilamunum.

4. Lyf, læknisvottorð, ofnæmi og óþol

Ekki þarf að koma með læknisvottorð, nema eins og segir í reglugerð: „Þeim börnum sem eiga við einhvers konar veikindi að stríða skal fylgja læknisvottorð þar sem fram komi upplýsingar um veikindin og skýr fyrirmæli læknis um meðferð, lyfjagjöf o.s.frv.“

Ef barnið tekur lyf, látið skriflegar leiðbeiningar fylgja með lyfinu og afhendið starfsmanni sumarbúðanna við brottför. Það sama á við ef eitthvað annað gæti skipt máli varðandi heilsu barnsins og líðan.

Athugið að hafa samband við skrifstofu minnst viku áður en námskeið hefst ef barn er með mataróþol eða ofnæmi svo hægt sé að gera ráð fyrir því í matarinnkaupum og matseld.

Hægt er að hringja á skrifstofu í síma 588-8899 eða senda tölvupóst á skraning@kfum.is Takið fram nafn barns, sumarbúðir og flokk.

5. Brottför – heimkoma

Farið er frá húsi KFUM og KFUK á Holtavegi 28 kl. 11.00 og heimkoma á sama stað um kl. 15:00.

Þeir sem kjósa að koma með og/eða sækja börn sín í sumarbúðirnar, í stað þess að nýta sér rútuferð, eru vinsamlega beðnir um að koma ekki með börnin fyrr en kl. 12 þann dag sem dvöl hefst og sæki þau ekki seinna en kl. 14:00 á brottfarardag.

6. Athugið

Vegna hættu á skemmdum eða slysum er þátttakendum óheimilt að hafa með sér hnífa eða önnur hættuleg tæki í sumarbúðirnar. Þátttakendur eru skaðabótaskyldir vegna skemmda sem þeir kunna að valda.

Síma og önnur dýr tæki er jafnframt óheimilt að taka með og sælgæti er ekki leyfilegt í Ölveri.

7. Myndbirting

KFUM og KFUK á Íslandi áskilur sér rétt til notkunar á myndum af þátttakendum í starfi og viðburðum á vegum félagsins. Félagið mun hafa að leiðarljósi að gæta varúðar og nærgætni við myndbirtingar í samræmi við leiðbeinandi álit persónuverndar.

8. Fyrirspurnir

Ef foreldrar vilja spyrjast fyrir um börn sín á meðan á dvölinni stendur er hægt að hringja í síma 433 8860 og ræða við forstöðukonu. Símatími forstöðukonu er á milli kl. 18:00-19:00. Vinsamlega athugið að heimsóknir til barnanna eru ekki æskilegar.

Fréttir og myndir úr sumarbúðunum verða birtar á heimasíðu sumarbúðanna www.kfum.is/olver

9. Skilmálar

Við minnum á skilmála vegna skráninga í dvalarflokka sumarbúða KFUM og KFUK en þar er að finna svör við mörgum spurningum.

10. Ölversbolir og annar söluvarningur

Hinir sívinsælu Ölversbolir eru seldir í Ölveri og Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK meðan birgðir endast. Bolirnir, í bláum eða rauðum lit, kosta 3000 kr. Einnig verða til sölu hvítir langermabolir í stærðunum

S-XXL og kosta þeir 3500 kr. Annar varningur merktur sumarbúðunum eru húfur á 2000 kr. Allur ágóði rennur beint í Sveinusjóð, söfnunarsjóð fyrir nýjum leikskála í Ölveri.

11. Lúsmýbit

Borið hefur á mýbitum hjá starfsfólki og börnum sem hafa dvalið í sumarbúðunum okkar á suðvesturhorni landsins, þ.e. Vatnaskógi, Vindáshlíð og Ölveri.

Þetta er hluti af náttúrunni og lítið hægt að gera, við reynum þó að vera með fyrirbyggjandi ráðstafanir eins og kostur er. Við mælum með að börnin klæðist langermabolum, háum sokkum, síðum buxum og

náttfötum á næturnar sem þekja vel. Einnig geta flugnanet eða flugnavarnarsprey komið að góðum notum.

Ef bit á sér stað má búast við óþægilegum kláða sem í flestum tilfellum er hægt að róa með Aloe vera kremum, Afterbite stifti, ofnæmislyfinu Histasín/Lóritín, eða sterakremi líkt og Mildison. Vinsamlega láta vita ef barnið ykkar má ekki taka eða fá eitthvað af framangreindu. Mjög gott gæti verið að láta börnin hafa framangreind úrræði meðferðis þegar haldið er í sumarbúðirnar. Þess má þó geta að úrræðin eru að öllu jöfnu í boði í sumarbúðunum. Kláðinn líður yfirleitt hjá á nokkrum dögum og bitin gróa. Athugið að ef

aðili er illa haldinn af bitum mælum við með að leitað sé til læknis.

Kaffisala Ölvers

Þann 20. ágúst kl. 14-17 verður hin árlega kaffisala. Þar gefst tækifæri til að skoða staðinn, gæða sér á kaffi og ljúffengum veitingum og styrkja í leiðinni starfið.

Með kveðju,

KFUM og KFUK á Íslandi