Ölver stendur á skemmtilegum stað í nágrenni Hafnarfjalls. Þar er hver dagur nýtt ævintýri, sambland af ómissandi hefðum, nýjum leikjum og uppákomum. Í starfinu er unnið með hin góðu gildi Biblíunnar, mikið sungið og boðið upp á hollan og góðan heimalagaðan mat.

Dagarnir í Ölveri eru viðburðaríkir og dagskráin fjölbreytt. Daglega er morgunstund og biblíulestur, brennókeppni og aðrar íþróttakeppnir og svo gönguferðir. Þá eru æfð leikrit og sýnd á kvöldvöku og heiti potturinn er alltaf vinsæll.

Ýmsar þrautir, keppnir og leikir eru hluti af dagskrá hvers dags, til dæmis hárgreiðslukeppni og hæfileikasýning, stultur og húlahringir, hefðbundin leiktæki og óhefðbundin eins og risahengirúmið, aparólan og báturinn eru líka mikið notuð.

Að kvöldi dags er kvöldvaka þar sem stúlkurnar sjá um dagskrá og eru leikrit og leikir yfirleitt stór hluti hennar. Hver dagur endar svo með því að bænakona, sérstakur leiðtogi hvers herbergis les og biður með sínum stúlkum.

Aðalskálinn var tekinn í notkun árið 1952. Í honum er stór matsalur, eldhús, kvöldvökusalur, bænaherbergi, starfsmannaaðstaða, svefnherbergi stúlknanna og þvotta- salernis- og sturtuaðstaða. Árið 2004 fóru fram gagngerar endurbætur á skálanum.

Leikskálinn er staðsettur skammt frá aðalskálanum. Þar er rúmgóður salur sem hentar vel til leikja af ýmsu tagi.

Heitur pottur er tengdur við aðalskála Ölvers og er hann óspart notaður af dvalargestum. Sérstakar reglur gilda um notkun pottsins í dvalarflokkunum.

Sumarbústaður í eigu Ölvers er skammt frá skálanum og er notaður af starfsmönnum og gestum.

Í hverjum flokki í Ölveri dvelja 46 stelpur.