Ölver stendur á skemmtilegum stað í nágrenni Hafnarfjalls. Þar er hver dagur nýtt ævintýri, sambland af ómissandi hefðum, nýjum leikjum og uppákomum. Í starfinu er unnið með hin góðu gildi Biblíunnar, mikið sungið og boðið upp á hollan og góðan heimalagaðan mat.

Dagarnir í Ölveri eru viðburðaríkir og dagskráin fjölbreytt. Daglega er morgunstund og biblíulestur, brennókeppni og aðrar íþróttakeppnir og svo gönguferðir. Þá eru æfð leikrit og sýnd á kvöldvöku og heiti potturinn er alltaf vinsæll.

Ýmsar þrautir, keppnir og leikir eru hluti af dagskrá hvers dags, til dæmis hárgreiðslukeppni og hæfileikasýning, stultur og húlahringir, hefðbundin leiktæki og óhefðbundin eins og risahengirúmið, aparólan og báturinn eru líka mikið notuð.

Að kvöldi dags er kvöldvaka þar sem stúlkurnar sjá um dagskrá og eru leikrit og leikir yfirleitt stór hluti hennar. Hver dagur endar svo með því að bænakona, sérstakur leiðtogi hvers herbergis les og biður með sínum stúlkum.

Aðalskálinn var tekinn í notkun árið 1952. Í honum er stór matsalur, eldhús, kvöldvökusalur, bænaherbergi, starfsmannaaðstaða, svefnherbergi stúlknanna og þvotta- salernis- og sturtuaðstaða. Árið 2004 fóru fram gagngerar endurbætur á skálanum.

Leikskálinn er staðsettur skammt frá aðalskálanum. Þar er rúmgóður salur sem hentar vel til leikja af ýmsu tagi.

Heitur pottur er tengdur við aðalskála Ölvers og er hann óspart notaður af dvalargestum. Sérstakar reglur gilda um notkun pottsins í dvalarflokkunum.

Sumarbústaður í eigu Ölvers er skammt frá skálanum og er notaður af starfsmönnum og gestum.

Í hverjum flokki í Ölveri dvelja 46 stelpur.

Nánar um sumarbúðalífið í Ölveri.

Við komuna í Ölver safnast stúlkurnar saman í matsalnum og heyra hagnýtar upplýsingar um staðinn og kynnast starfsfólkinu. Í framhaldinu er þeim raðað í herbergi. Vinkonur sem koma saman geta þá óskað eftir að fá að deila herbergi en einnig eru margar sem kynnast í rútunni og geta fengið að vera saman. Herbergin eru sex og heita Fjallaver, Fuglaver, Hamraver, Hlíðarver, Lindarver og Skógarver. Fyrsti dagurinn fer almennt í að koma sér fyrir, kynnast hinum stelpunum og skoða sig um á svæðinu. Um kvöldið komast stúlkurnar að því hver verður bænakonan þeirra, en það er sérstakur leiðtogi hvers herbergis, sem les fyrir stúlkurnar á kvöldin, biður með þeim bænir og sér til þess að öllum líði vel og geti sofnað. Stúlkurnar geta einnig leitað til bænakonunnar sinnar yfir daginn, sem og auðvitað annars starfsfólks.

Hver dagur í Ölveri hefst á morgunverði í matsalnum. Stelpurnar eru vaktar um hálftíma fyrr og blásið er í lúður til að gefa til kynna að komið sé að morgunmat. Það á við um alla dagskrárliði, að blásið er í lúður þegar hópurinn á að safnast saman, hvort sem það er í matsalnum eða annarsstaðar. Að morgunverði loknum fara allir út að fánastöng í fánahyllingu því í Ölveri flöggum við dag hvern. Þá er kominn tími til að búa um og ganga frá í herbergjunum því það vilja auðvitað allir fá fullt hús stiga í herbergjakeppninni sem snýst um að vera stilltur og duglegur að fara að sofa á kvöldin og hafa fínt og snyrtilegt í herbergjunum. Það er heilmikill farangur og dót í herbergjunum því í hverju herbergi eru átta stúlkur. Þær læra því að sinna um herbergin sín og ganga frá eftir sig. Síðan er komið að biblíulestri í kvöldvökusalnum okkar á efri hæð hússins. Í biblíulestrinum eru m.a. sungin skemmtileg lög, stúlkunum kennt að fletta upp í Nýja-Testamentinu, sagðar eru sögur af Jesú og farið með bænir. Áður en farið er í hádegismat keppa stúlkurnar svo í hinum margfræga Ölvers brennibolta.

Í hádeginu er boðið upp á góðan heimalagaðan mat. Eftir hádegið er boðið upp á eitthvað skemmtilegt að gera, ýmist úti- eða inniveru, gönguferð, frjálsan tíma, íþróttakeppnir, leiki, o.s.frv. Í kaffinu er ávallt eitthvað gómsætt í boði, nýbakað bakkelsi og brauðmeti fyrir svangar dömur. Eftir kaffi heldur dagskráin áfram og oft er farið í pottinn. Almennt er sá háttur hafður á að herbergin fara hvert og eitt í pottinn saman. Áður en kvöldmaturinn er borinn fram gefst einnig tími fyrir undirbúning skemmtiatriða fyrir kvöldvöku. Í Ölveri sjá stúlkurnar um skemmtiatriði fyrir hópinn og á hverju kvöldi eru eitt til tvö herbergi sem sjá um skemmtunina. Langflestir sýna leikrit eða hafa leiki. Stelpunum gefst þannig tækifæri á að æfa samvinnuhæfni, rækta sköpunargleðina og koma fram. Þær eru yfirleitt mjög spenntar fyrir þessu og njóta sín í botn á sviðinu. Eftir söng og skemmtun á kvöldvökunni fá dömurnar að heyra hugleiðingu og biðja. Að því loknu er kvöldhressing í matsalnum og Ölversstúlkur fara í háttinn. Bænakonur koma inn í herbergin, lesa biðja og ró kemst yfir húsið.

Í Ölveri gefst stúlkum einstakt tækifæri á því að upplifa skemmtilegt sumarævintýri á yndislegum stað, borða hollan og góðan mat, eignast góða vini, láta reyna á hæfileika sína og sjálfstraust og svo margt margt fleira. Við hlökkum til að sjá ykkur í sumar!

FÓKUSFLOKKUR 24.-29. júlí 2018

Fókusinn verður settur inn á við með áherslu á sjálfseflingu og góð samskipti. Fræðsla, hópmarkþjálfun, markmiðasetning, slökun, gagnræður, málað frá hjartanu og fleiri skemmtileg verkefni. Viðurkenndir markþjálfar hafa umsjón með þessari nýjung.

PJAKKAFLOKKUR 7.-10. júní 2018

Pjakkaflokkur er 3 daga flokkur fyrir 6-9 ára stráka, sem stendur frá fimmtudegi til sunnudags og hentar vel fyrir stráka sem aldrei hafa farið í sumarbúðir. Á sunnudagskvöldinu er foreldrum og systkinum boðið í kvöldmat og kvöldvöku áður en haldið er heim á leið. Athugið að boðið er upp á rútu uppeftir á föstudeginum en gert er ráð fyrir að drengirnir fari heim með foreldrum að pjakkaflokk loknum.

LISTAFLOKKUR 19.-24. júní 2018

Í listaflokki er lögð er áhersla og listir og skapandi starf af ýmsu tagi.

KVENNAFLOKKUR 21.-23. september 2018

Kvennaflokkur er fyrir allar konur á aldrinum 18-118 ára. Góð næring fyrir líkama, sál og anda. Göngurferðir, heitur pottur, uppbyggileg fræðsla, slökun og kyrrð.