Dagur 3

Sólin heiðraði okkur með nærveru sinni í dag og því nýttum við daginn mikið til útiveru. Eftir að hafa gætt sér á lasagne í hádeginu, fóru stelpurnar í gönguferð niður að á og þær allra hörðustu böðuðu sig í ánni. Eftir kaffitíman þar sem boðið var upp á súkkulaðiköku og tebollur fóru allar stelpurnar í heita pottinn og svo var hoppað á hoppudýnu, leikið í skotbolta í lautinni, fótbolta ásamt hinu sívinsæla hengirúmi svo eitthvað sé nefnt. Kvöldvakan var svo úti líka og endaði með því að stelpurnar grilluðu sér sykurpúða yfir varðeldi. Þá var haldið upp í skála þar sem foringjarnir voru búnir að undirbúa ævintýragang og fengu stelpurnar að kynnast 4 mismuandi persónum á skemmtilegan hátt. Þær voru ekki lengi að sofna eftir langan og skemmtilegan dag.

Dagur 4.

Eftir viðburðaríkan dag í gær voru allar stelpurnar í fastasvefni kl. 9 og fengu því að sofa til klukkan 09:30 svo voru biblíulesturinn og brennókeppnin á sínum stað. Í hádeginu var karrýfiskur og borðuðu stelpurnar vel af honum. Eftir hádegi héldum við svo af stað í óvissuferð. Ferðinni var heitið upp í Vatnaskóg, en strákarnir sem dvelja þar núna voru í gönguferð og gátum við því notið þess sem staðurinn hefur upp á á bjóða. Stelpurnar fengu að fara út á mótorbát og hoppa á trampolíni sem er úti á vatni svo léku þær í íþróttahúsinu. Eftir ljúffengan kaffitíma í Vatnaskógi héldum við í sundlaugina að Hlöðum og komum aftur til baka í Ölver um sex leytið. Í stað kvöldvöku höfðum við bíó og popp og komu stelpurnar sér vel fyrir í náttfötum og nutu þess að slaka á eftir annasaman dag. Sólin hélt áfram að blessa okkur í dag og gerði daginn þannig enn betri.

Nýjar myndir má sjá hér

Bestu kveðjur Erna Björk Harðardóttir, forstöðukona