Dagur 1
Það voru 44 kátar stelpur sem komu til okkar í þennan fyrsta ævintýraflokk sumarsins. Margar hverjar hafa komið áður í Ölver eða aðrar sumarbúðir á meðan aðrar eru að stíga sín fyrstu skref.
Eftir að allar stelpurnar voru búnar að koma sér fyrir og borða súpu og brauð var farið í gönguferð um svæðið og spilað brennó, en brennókeppni er órjúfanlegur þáttur af starfinu okkar hér. Eftir kaffitíma byrjaði svo íþróttakeppnin með jötunfötu og stígvélasparki, við höfum fjölbreyttar keppnir svo að flestir finna sig í einhverju. Þá var frjáls tími sem margar nýttu til útiveru eða í vinabandagerð. Í kvöldmat var svo boðið upp á fiskibollur, hrísgrjón og karrýsósu.
Einn af föstu punktunum hjá okkur er svo kvöldvaka, þá fá öll herbergi að skiptast á að sjá um skemmtidagskrá svo syngjum við mikið og svo endar kvöldvakan með hugleiðingu frá orði Guðs. Í kvöldkaffi er svo vanalega boðið upp á ávexti.
Einn af stóru spennuþáttunum fyrsta kvöldið er svo að fá að vita hvaða bænakonu hvert herbergi fær. En bænakonan endar daginn með stelpunum, ýmist með sögum, söng, sprelli, slökun og svo bæn. Að þessu sinni voru bænakonurnar búnar að fela sig úti í skógi og þurftu stelpurnar því að fara út að leita að þeim sem vakti mikla lukku. Vel gekk að fá ró í skálann og sofnuðu flest allar fljótt og vel þetta fyrsta kvöld.
Í ævintýraflokkum blöndum við saman hefðbundinni sumarbúðadagskrá með smá óvæntum ævintýrum og skemmtilegheitum svo það er spennandi vika framundan hjá stelpunum.

Dagur 2

Það voru flestar stelpurnar í fasta svefni þegar þær voru vaktar klukkan 9. Í morgun mat er boðið upp á cheerios, cornflakes, súrmjólk og hafragraut. Eftir morgunmat er svo hefð fyrir fánahyllingu og svo gefst stlkunum kostur á að taka til í herbergjunum sínum áður en við höfum biblíulestur. Þar syngjum við saman, fræðumst um orð Guðs og biðjum. Að þessu sinni töluðum við um það hversu dýrmæt sköpun við erum og hvað hver og ein manneskja er einstök. Við gengum hringinn þar sem hver og ein átti að segja frá einhverju sem gerði hana einstaka og það var gaman að sjá hversu ófeimnar flestar voru að nefna einhverja góða eiginleika/hæfileika í sínu fari. Eftir biblílesturinn hófst svo brennókeppnin, þá er stúlkunum skipt í lið þvert á herbergi og að þessu sinni eru liðin nefnd eftir afríkudýrum. Eftir ljúfengar kjötbollur, karteflur og sósu var svo haldið út í skemmtilegan leik sem við köllum klemmuleikinn, þá var stelpunum skipt í tvö lið sem áttu að fela fána í skóginum fyrir hinu liðinu og reyna svo að ná klemmum af andstæðingnum. Í kaffitímanum var boðið upp á heilhveitibollur og sjónvarpsköku. Eftir kaffi var svo hæfileikakeppni þar stelpurnar sýndu fjölbreytt atriði meðal annars dans, frumsamdar vísur, hreyfa eyrun, ballet, fimleika, spila á hljóðfæri og syngja. Eftir það var frjáls tími og voru flestar úti enda lét sólin sjá sig og hér var nánast logn.
Eftir kvöldvöku kom svo í ljós að búið var að stela öllu kornflexinu og þurftu stelpurnar því að fara út og leita að hinum grunsamlegu þjófum. Það kom svo í ljós að tveir aðstoðarforingjar höfðu brugðið á leik og var þetta upphafið að ærlegu náttfatapartý með miklum dansi, leikjum, leikritum, sögum og íspinna. Stelpurnar fóru því heldur seinna að sofa eftir þessa skemmtun en flest herbergi voru komin í ró fljótt og vel.

Bestu kveðjur Erna Björk Harðardóttir, forstöðukona

 

Myndir hér