Dagur 5

Það er ekki hægt að segja annað en að við höfum verið einstaklega heppnar með veður þessa daga. Dagurinn í dag var sá allra besti, sól og blíða allan daginn. Eftir hefðbundana morgundagskrá og ljúffengan hádegisverð,  sem samanstóð af kornflexkjúklingi og pasta, var komið að því að halda jól. Stelpurnar hlustuðu á jólalög, föndruðu jólaskraut, gengu í kringum jólatré og heyrðu og sáu jólaguðspjallið leikið. Þetta þótti stelpunum sniðugt og skemmtillegt. Kaffitíminn var úti og eftir hann var vatnsstríð og heitur pottur og nutum stelprunar sín í blíðunni. Í kvöldmat var svo heimalöguð pizza sem rann hratt og vel niður, kvöldvakan var svo á sínum stað og voru 2 herbergi sem sáu um leikrit og leiki á henni. Eftir kvöldvöku var svo komið að hermannaleiknum sem að margar hverjar eru búnar að vera að spyrja um frá fyrsta degi. Einhverjar urðu hálfskelkaðar í upphafi þar sem uppáklæddir „hermenn“ bönkuðu upp á í kvöldvökusalnum. En það leið fljótt hjá og höfðu all flestar mjög gaman af leiknum. Það tók eðlilega nokkurn tíma að fá ró í skálann eftir svona leik, en allar sofnuðu þó vært að lokum.

 

Dagur 6 – Veisludagur

Síðasti heili dagurinn okkar er þá runninn upp, hinn svokallaði veisludagur. Eftir biblíulestur var komið að úrslitaleiknum í brennó og var það lið Antilópa sem hafði sigur eftir hörkuleik. Þær mæta svo foringjunum á morgun og er mikil spenna yfir því að reyna að sigra foringjana. Hádegismaturnn var á sínum stað og eftir hann var svo keppt í sippi og steinn, skæri blað. Þá var svokölluð fantasíukeppni þar sem sköpunargleðin fær útrás og stúlkurnar setja hárgreiðslur og jafnvel andlitsmálingu hvor á aðra. Eftir kaffitímann var svo boðið upp á heita pottinn fyrir þá sem vildu eða sturtu og stelpurnar klæddu sig upp fyrir veislukvöldið. Í veislumat var boðið upp á hamborgara franskar, grænmeti og gos. Á veislukvöldvökunni var svo komið að foringjunum að skemmta stelpunum með leikritum og söng. Kvöldhressingin var svo rice krispies kökur. Það var nokkur galsi í hópnum eftir þessa skemmtun  sem er svosem ekki skríðtið en ró var komin á um miðnætti.

 

Dagur 7 – Heimferðardagur

Þá er síðasti dagurinn runninn upp. Biblíulestur, brennó, pökkun og verðlauanafhending liggur fyrir á þessum degi. Rútan leggur svo af stað héðan klukkan 15:00. Við starfsfólkið erum þakklátar fyrir að hafa fengið að kynnast þessum flottu stelpum, jákvæðni og fjör hefur einkennt þennan hóp og allt hefur gengið stórslysalaust fyrir sig. Við biðjum góðan Guð að leiða og blessa þennan hóp áfram og vonumst til að sjá sem flestar að ári.

Ölverskveðjur, Erna Björk Harðardóttir, forstöðukona

Myndir frá vikunni má skoða hér