Þá er enn einum deginum að ljúka hér í Ölveri. Morguninn hófst með zumba kennslu frá ráðskonunni. Biblíulestur var með hefbundnum hætti og brennó keppninni lauk þar sem liðið Tyrkja-Gudda stóð uppi sem sigurvegari. Í hádegismatinn var Píta með hakki og grænmeti. Eftir hádegismat voru stöðvar sem stelpurnar gátu valið á milli. Vinsælasta stöðin var íþróttastöð þar sem boðið var upp á brennó, skotbolta og fleira, á annarri stöðinni bjuggu stelpurnar til líkamsskrúbb og notuðu meðal annars sykur, matarlit og möndlu- eða vanilludropa. Skrúbburinn verður síðan í boði fyrir allar stelpurnar að nota á morgun því þá ætlum við að hafa sérstaka dekurstund fyrir veislukvöldið. Á þriðjustöðinni var bakað og stelpurnar bjuggu til svo kallað cake pop. Eftir kaffi fóru allar stelpurnar í sturtu og áttu svo notalega stund og horfðu á mynd uppi í sal. Í kvöldmatinn var pastabar og stelpurnar gátu valið sjálfar meðlæti í sitt pastasalat. Á kvöldvöku var Skógarver með atriði og skemmtu allir sér konunglega. Þegar stelpurnar fóru niður í kvöldkaffi kom í ljós að foringjarnir voru búnir að skipuleggja kaffihúsakvöld með aðstoð frá eldhúsinu. Boðið var upp á vöfflur og ávexti og að sjálfsögðu var líka boðið upp á cake pops sem stelpurnar bökuðu fyrr um daginn.

Á morgun verður svo veisludagur með öllu tilheyrandi.

kv. Hafdís Maria, forstöðukona.