Það var eftirvænting í loftinu þegar rútan lagði af stað frá Holtavegi og sem leið lá í Ölver. Þegar við komum á leiðarstað komum við allar saman inn í matsal og forstöðukona bauð stelpurnar velkomnar, fór yfir praktísk atriði á staðnum. Þetta er stórt heimili sem við sköpum saman næstu 6 daga. Það er svo notalegt þegar við lifum í takt og sköpum andrúmsloft vinsemdar og virðingar. Þá kynntu foringjar og aðstoðarforingjar sig og skiptu stelpunum í herbergi. Stelpurnar komu sér vel fyrir í herbergjunum og gerðu sínar vistaverur notalegar fyrir komandi daga.

Þá var hringt inn í hádegismat, þar sem þær fengu að kynnast Ölvers-hefðinni að syngja söng fyrir matinn og þakka fyrir sig með fallegu kalli á eftir. Það er mikil stemning að fagna saman! Þær gæddu sér á skyri og pítsabrauði, sem rann ljúflega niður.
Eftir matinn var frjáls tími og fóru margar út að leika sér, enda margt skemmtilegt að gera og skoða hér á stóra svæðinu okkar. Dagurinn var heldur votur, þ.a. pollaföt og stígvel reyndust vel. Svo leiddu foringjar þær í göngu um svæðið til að kynna þeim allt sem hér er í boði og enduðum við allar inni í íþróttahúsi þar við fórum yfir reglurnar í Brennó og skelltum okkur í æfingaleik, en á hverjum morgni er farið í Brennó og er keppt á milli liða út vikuna. Eftir það fórum við í nokkra nafnaleiki til að kynnast betur og svo í nokkra skemmtilega leiki þar sem við fengum að sprikla svolítið, fíflast og hafa gaman.
Þá var komið að síðdegissnarli og við tókum sprettinn inn í hús, þar sem ráðskona og bakari buðu upp á bananabrauð og súkkulaðibitaköku. Hvílík sæla að vera í sumarbúðum!
Í lok drekkutímans var næsti dagskrárliður tilkynntur – Ölvers Top Model, þar sem hverju herbergi var úthlutað gúmmíhanska, 2 bollakökuform, stórum plastpoka, garni og kaffifilter, og þeim var frjálst að bæta við efni úr eigin safni líka. Forningjarnir umbreyttu matsalnum í tískuhús með áhorfendabekkjum og rauðum dreglum. 45 mínútum síðar birtust stelpurnar með sína fyrirsætu sem brugðu sér baksviðs á meðan hópurinn klappaði dómnefndina upp. Dómararnir voru að sjálfsögðu mjög miklar týpur og furðufuglar, glens og grín á hverju strái. Með stemningstónlist undir gengu fyrirsæturnar dregilinn, skelltu sér í gírinn og sameinuðust svo með sínum hóp í myndatöku og stórskemmtilegu viðtali hjá dómnefnd. Magnaður sköpunarkraftur hjá þessum stelpum og gaman að sjá hvernig þær unnu úr hráefninu á sinn einstaka hátt! Í lokin var svo smá leiklistaræfing frá formanni dómnefndar, sem leiddi stelpurnar inn í dramatíska leikhætti og gengu svo allar stelpurnar rauða dregilinn og fengu að spreyta sig á að vera í sviðsljósinu – alveg dásamlegt að sjá hvað það er mikill fílingur í hópnum og allar opnar fyrir að stíga fram og leika sér.
Eftir það var frjáls tími, þar sem í boði var að fara út að leika, í boltaleiki í íþróttahúsinu eða gera vinabönd í salnum og perla. Þetta gaf foringjunum tækifæri á að vera með stelpunum í smærri hópum og kynnast þeim betur.
Í kvöldmat fengu stelpurnar fisk, ofnbakaðar kartöflur og grænmeti. Þær borðuðu vel og lagðist máltíðin heldur betur vel í mannskapinn. Þá fengu þær frjálsan tíma og fóru margar út að leika eða spila uppá sal. Næst var haldið upp í sal á kvöldvöku þar sem við sungum söngva hástöfum og dönsuðum með. Tvö herbergi höfðu fengið tíma fyrir kvöldmat til að undirbúa atriði kvöldsins og fengum við að njóta tveggja bráðskemmtilegra leikrita frá hvoru herbergi fyrir sig. Einn foringjanna var svo með hugleiðingu um mikilvægi þess að vanda sig í samskiptum, tala og hegða sér af virðingu við sjálfan sig og aðra, þ.a. okkur líði öllum vel saman.
Stelpurnar fengu sér svo kvöldsnarl, epli og appelsínur, og gerðu sig tilbúnar í háttinn. Þegar allar voru tilbúnar fékk hvert herbergi vísbendingar til að finna sína Bænakonu. Hvert herbergi fær semsagt úthlutaðan foringja sem fylgir þeim inn í ró og hvíld eftir daginn, og hefur svona extra auga með sínum stelpum í gegnum dagana. Bænakonurnar voru þá búnar að klæða sig upp í furðulegustu búninga og fela sig hér og þar um húsið.
Allan daginn ómaði húsið af glaðværum röddum, hlátrasköllum og tiplandi tám. Margar voru fljótar að sofna eftir langan og erilsaman dag á meðan aðrar nutu góðs af ljúfri nærveru Bænakvenna, því ef söknuður heim lætur á sér kræla er svo gott að fá stuðning til að finna ró og styrk til að leggjast til hvílu og ná góðri hvíld fyrir næsta dag.
Með þakklæti og hlýju,
Áróra