Fyrsta nóttin gekk vel og stelpurnar náðu góðri hvíld eftir erilsaman dag, en eins og við er að búast tók það sumar stúlkurnar smá tíma að venjast að sofa á nýjum stað. Áður en það var vakið var farið að heyrast smá pískur fram á gang úr sumum herbergjum, stelpurnar svo spenntar að segja vinkonunum frá nóttinni. Svo vakti foringi þær með skemmtilegri tónlist, gekk á milli herbergja og vakti stelpurnar blíðlega. Þær voru svo sprækar, fljótar að klæða sig og fara á ról.
Morgundagsskráin er ávallt sú sama hér í Ölveri og hefur reynst frábærlega til að hefja daginn. Í morgumat fengu þær hafragraut, kornfleks, seríos og með því. Eftir mat fóru þær út í fánahyllingu, þar sem sunginn er söngur og fáni dreginn að húni – nú í hressandi úða og allar græjaðar í pollafötin fyrir útiveruna og komu inn ferskar og frísklegar.
Þá fengu stelpurnar tíma til þess að taka til í herbergjunum sínum og gera sitt rými snyrtilegt fyrir daginn. Þá komum við saman í samkomusalnum í morgunstund. Við sungum söngva og þessi samvera er líka tækifæri til að sitja saman í ró, færa þakkir og biðja fyrir deginum. Forstöðukona las bókina „Þú ert frábær“ sem segir svo fallega frá því hvernig við búum öll yfir þeim ofurkrafti að finna okkar sanna virði innra með okkur, sama hvað öðrum finnst um okkur – lof eða last. Svo gekk englastytta um salinn og hver og ein bað sína þakkarbæn, í hljóði eða upphátt, og var kærleikurinn í salnum svo áþreifanlegur að undirrituð táraðist. Næst á dagsskrá var brennó, en nú var fyrsta lota í formlegri brennókeppni vikunnar, liðin tilkynnt og fjör færðist í leikana. Eftir brennó var hádegismatur, þar sem í boði var….. *trommusláttur* …. Hakk & spaghetti! Út brutust þvílík fagnaðarlæti og voru stelpurnar í skýjunum með máltíðina.
Enn hærri fagnaðaróp fylltu svo rýmið þegar næsti dagskrárliður var tilkynntur – Hæfileikasýning. Stelpurnar nýttu frjálsan tíma til að undirbúa sín fjölbreyttu atriði – dansar, leikrit, leikir og fleira. Það var þvílíkt fjör og virkilega gaman að sjá stelpurnar stíga á svið og sýna hvað í þeim býr. Þær fengu svo frjálsan tíma og nutu þess að leika úti í rigningunni, perla, spila eða spjalla. Í síðdegissnarl voru bananar, pítsasnúðar (aftur fagnaðarköll) og svo var komið að skapandi listgjörningi tengdum eldhúsinu! Hver stúlka fékk disk með kókoskúlu-deigi og mátti móta það eins og andinn blés í brjóst. Það var svo skemmtilegt að fylgjast með alls kyns dýrum, náttúrufyrirbrigðum, stöfum og formum verða til. Á eftir nutu þær þess svo í botn að gæða sér á fagurmótuðu góðgætinu.
Næsta tilkynning – trommusláttur… Andlitsmálning! Dans! Heitur pottur! Nú lá við að þakið rifnaði af húsinu og ég er ekki frá því að hátíðnimet hafi verið slegið hér í dag. Hópnum var skipt í tvennt þ.a. helmingur hópsins byrjuðu í matsalnum þar sem stelpurnar komu sér fyrir við spegla og leyfðu ímyndunaraflinu og sinni innri snilld að birta sig á sínu eigin andliti, með ýmsum litum og formum. Hinn hluti hópsins byrjaði í dansfjöri uppá sal, í smá upphitun og brugðu svo á leik í Lukku Láka og Just Dance. Þær skemmtu sér svo drottningarlega og dönsuðu og dönsuðu. Eftir þetta líf og fjör fóru herbergin í pottinn hvert af öðru, þvoðu af sér litina og nutu þess að leika og slaka á í heita vatninu og rigningarúðanum. Tvö herbergi undirbjuggu atriðin sín fyrir kvöldvöku kvöldsins.
Í kvöldmat var hinn sígildi frábærismatur grjónagrautur og smurt brauð með. Eftir kvöldmat var frjáls tími og voru margar stelpurnar snöggar að klæða sig í pollaföt og fara út að leika í regninu. Þá var komið að kvöldvökunni – syngja lög með hreyfingum, horfa á frábær leikrit og taka þátt í leikjum frá stúlkum úr tveimur herbergjum. Stórskemmtilegt að fylgjast með – og ekki síður að sjá hvað þær njóta sín þegar þær fá að bjóða hinum uppá skemmtun. Þá komu nokkrir foringjar inn í salinn, alveg eins og álfar út úr hól, komnir í náttfötin og skildu ekkert í að stelpurnar væru bara ennþá í fötum dagsins því nú væri komið að…. Náttfatapartý! Það var mikill fögnuður hjá stelpunum sem hlupu inn í sín herbergi til að skella sér í náttföt og mæta svo á dansiballið. Foringjarnir leiddu nokkra skemmtilega dansa, stemningin var rosaleg í salnum en svo voru nokkrar sem voru ekki alveg til í svona mikið fjör og vildu frekar njóta rólegrar samveru inná herbergi að spila eða lesa bók. Eftir stutt og fjörugt ball söfnuðust við allar á salnum og tveir foringjar komu inn og léku bráðfyndið leikrit sem endaði með að annar foringinn eignaðist lítið barn sem var fullur poki af ávaxtaís! Enn og aftur óvænt gleði og gaman hjá stelpunum og þær nutu þess að borða ísinn og horfðu á klassískt grínleikrit hjá foringjunum á meðan. Svo fengu þær hvetjandi hugleiðingu frá öðrum foringja með þann boðskap að þegar við tökumst á við stór verkefni (eins og lífið sjálft) er gott að taka bara eitt skref í einu, eitt skref í einu. Stelpurnar fóru svo hljóðlega í háttinn þar sem nokkrar höfðu valið hvíla sig og fara að sofa aðeins fyrr og var einstaklega fallegt að sjá tillitsemina og vinsemdina sem þær sýndu hvorri annari þar. Þær gátu nælt sér í smá ávaxtabita í kvöldsnarl og svo bursta, pissa og ró. Stelpurnar áttu notalegt stund með sinni bænakonu fyrir svefninn.
Nú í lok annars dags sammælumst við starfsfólkið um hvað það er dásamlegt að kynnast stelpunum betur og betur – og við eigum skemmtilega daga í vændum saman.
Kærar kveðjur úr Ölveri,
Áróra