Morguninn byrjaði rólega, örfáar vaknaðar áður en vekjarinn vakti með tónlist og léttu spjalli, en annars sváfu flestar vært. Við tók hefðbundin morgundagskrá – morgunmatur, fánahylling, herbergjatiltekt og svo morgunstund á sal. Stelpurnar eru farnar að þekkja Ölvers-lögin vel og við njótum þess að stilla saman strengi með því að syngja saman. Í hugleiðingu morgunsins sagði undirrituð frá sinni sögu á lífsins leið og sýndi myndir með. Stelpurnar lögðu vel við hlustir og komu fjölda spurningar úr sal. Ein þótti mér sérstaklega skemmtileg: „Er þetta sönn saga?!?“, sem var áhugaverður spegill á ævintýrið sem okkar persónulega líf getur verið. Hver stúlka var með Nýja Testamentið hjá sér í stundinni og saman lærðum við að fletta upp á versi, og lásum saman um kærleikann, en kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. Eftir stundina skelltu stelpurnar sér í brennó, sem er svo fín hreyfing og hressandi útrás fyrir hádegismatinn.
Í hádegismat buðu eldhús-snillingarnir upp á grænmetisbuff, kúskús og salat. Tilkynningin fyrir næsta dagskrárlið fékk ekki jafn ofurtrylltar undirtektir og margir aðrir – en eins og gerist svo oft að þá áttum við ekki á hvað sumt er skemmtilegt fyrr en við gerum það! Því nú vorum við að fara í…. GÖNGUTÚR! Hahaha…. „Uuu já ókei – göngutúr?“ var svolítið stemningin í viðbrögðunum. En það var nefnilega mjög mikilvægt markmið í göngutúrnum; að finna einn stein og eina litla trjágrein til að nota síðar í listsköpun. Í dag var þurrt og milt veður og stelpunum fannst alveg æðislegt í göngu. Við gengum upp í fjall, upp að stórum steini og svo gaman að sjá kraftinn í stelpunum að ganga upp brekkurnar. Þær eru fullar af orku og nutu þess að fá frískt loft, viðra sig og hreyfa. Þegar þær komu til baka héldu flestar áfram að leika úti fram að síðdegissnarli. Aðrar komu inn í föndur, spil og dundur.
Í síðdegissnarl var boðið upp á hinar sívinsælu Ölvers-brauðbollur og gómsætar súkkulaðibitakökur og ávexti. Tilkynning fyrir næsta dagskrárlið féll heldur betur í kramið því bæði var boðið upp á vinabanda-kennslu, búa til töfrasprota úr trjágreininni sinni og skreyta hann með garni…. og síðast en ekki síst að gera Tie-Dye! Ölver gefur hverri stúlku þvottastykki og þær fóru í bráðskemmtilegt framleiðsluferli þar sem þær fengu lítinn plastpoka með nafninu sínu, rakt þvottastykki sem þær brutu svo saman á sniðugan hátt, bundu um með teygju og græjuðu sig til að lita. Sumar völdu að vera í dökklituðum fötum til að flíkurnar myndu örugglega ekki taka fatalitinn og sumar skelltu sér bara í sundfötin sín. Þær fóru svo út í brekku hér fyrir utan og hver og ein litaði sitt stykki með því að sprauta regnbogans litum úr brúsum á hvítt klæðið. Litadýrðin! Þetta fannst þeim mikið sport og skemmtilegt verkefni. Það verður svo spennandi að sjá hvernig litunin kemur út þegar liturinn hefur fengið að sitja í yfir nóttina, en þá er liturinn skolaður úr, stykkið þerrað og svo koma stelpurnar með það heim á föstudag.
Leiðbeiningar varðandi þvott á Tie-Dye þvottastykkinu: Mikilvægt er að þegar það er þvegið í fyrsta sinn í þvottavél að ekkert annað sé sett í vélina, hiti 30°C og ekki nota þvottaefni.
Þegar stelpurnar voru búnar að föndra greinar, vinabönd og Tie-Dye-a fóru þær út að leika sér, en nú var smátt og smátt að þykkna upp og smá úði í lofti. Þær létu það alls ekki stoppa sig, klæddu sig vel og dreiðfust um leiktæki og skóginn. Tvö herbergi fóru með foringjum að æfa atriði kvöldsins. Næst var hringt inn í kvöldmat og fengu þær mexíkóska tómatsúpu, með vali um sýrðan rjóma og snakk ofan í, og svo casadillas. Þeim fannst maturinn alveg æðislegur! Svo var frjáls tími, sem mörgum finnst ekki neitt síðra en skipulögð dagskrá.
Á kvöldvöku voru síðustu tvö herbergin með atriði, leikrit og leik, og var góð stemning í salnum að vanda. Öllum að óvörum komu tveir foringjar inn í salinn, íklæddir eins og stelpur í flokknum. Þær tóku frábæran leikþátt þar sem þær tóku sígildustu kvörtin og  kveinin sem foringjarnir heyra hér í Ölveri, og þær hittu svo naglann á höfuðið að stelpurnar skelluhlógu og ekki síður við starfsfólkið. Að lokum fengu þessir foringjar í dulargervi að tjá djúpstæða ósk sína – hvað það væri nú sem þær vildu gera sem væri alveg æðislegt! Uuuu… þær vildu fá að horfa á bíómynd og borða popp, og fá að fara í náttfötin og hafa sængina með til að hafa alveg kósý kósý. Enn og aftur – þakið þaut næstum af húsinu við fagnaðarlætin og voru þær sko fljótar í náttföt og tilbúnar í mynd. Stelpurnar fengu að horfða á Garðabrúðu og foringjarnir þjónustuðu þær alveg upp í topp og færðu þeim perubita og popp í glasi.
Þegar myndin var búin voru þær snöggar að gera sig tilbúnar í svefninn, áttu svo náðugt og notalegt kvöld með herbergisfélögunum sínum og bænakonum. Þær voru fljótar að sofna og greinilegt að stelpurnar finna meira traust og öryggi eftir hvern dag, og auðveldara að finna ró og fá hvíld á töluvert öðruvísi heimili en þær eiga að venjast heima við.
Það er svo stórkostlegt að upplifa sumarbúðarstarfið. Við starfsstúlkurnar fundum allar í dag hvernig stúlkna hópurinn hefur slípast vel saman, kynnst hvorri annari og okkur, þær sitja svo vel í sér og alveg magnað að sjá þær blómstra – hver á sinn einstaka hátt.
Með þakklæti og gleði,
Áróra