Það var svo mikil ró þegar vekjarinn gekk um gangana í morgun að við ákváðum að leyfa stelpunum að sofa aðeins lengur, því þær eru svo einstaklega snöggar að gera sig til fyrir morgunmatinn. Morgunmatarhlaðborðið sló í gegn að vanda og var einn foringinn svo sniðugur að æfa með þeim nýja útgáfu af „fagni“ þannig að við myndum hlífa öllum hljóðhimnum við hátíðni-ópum. Restina af deginum hafa þær fagnað innilega en töluvert settlegar en áður og alveg magnað að sjá hvað þær eru fljótar að taka við nýjum tillögum og tileinka sér það í hegðun. Svo fórum við út í fánahyllingu í ferkst, skýjað og milt veður. Stelpurnar eru orðnar vanar morgunprógramminu og flinkar í að taka vel til í herbergjunum og gera þau snyrtileg og fín.
En skyndilega ómaði bjalla sem var ekki kunnugleg og stelpurnar voru heldur betur fljótar að átta sig og hnippa hver í aðra. Þetta var brunabjallan! Eins og einn hugur voru þær allar komnar fram á gang og fóru beinustu leið út á stétt og svo niður í laut í örugga fjarlægð frá húsinu, á tásunum eða sokkunum. Því þegar brunabjallan ómar skiptir ekkert meira máli en þeirra öryggi. Brunakerfið í Ölveri er flott og starfsstúlkurnar þekkja það vel og brugðust hárrétt við – nokkrar fylgdu börnunum út og gerðu talningu hið snarasta og aðrar voru eftir í húsinu og gátu rakið uppruna viðvöruninnar inn á starfsmannagang og hringdu rakleiðis í öryggisfyrirtækið. Enginn eldur var á svæðinu og kom í ljós að ryk og flugur höfðu komist inn í reykskynjara sem truflaði nemann og sendi viðvörun af stað. Öllum var létt og við gátum aftur farið inn í hús og haldið okkar striki. Stelpurnar eiga hrós skilið fyrir sín fumlausu viðbrögð.
Á morgunstund nutum við þess að syngja saman, sitja saman í ró og biðja fyrir deginum og forstöðukona sagði frá henni Kristrúnu, sem lagði líf sitt í að stofna og halda úti stúlknasumarbúðum í Ölveri. Hennar óþreytandi framtak er það sem gerði okkur kleift að vera hér í dag að njóta kærleiksríkrar samveru, umvefjandi náttúru og tækifærum til að þroskast og vaxa sem manneskjur, hver á sinn einstaka hátt. Þökk sé Kristrúnu og hennar köllun að vinna uppbyggjandi starf með börnum og láta ekkert stoppa sig í því. Að lokum voru stúlkurnar hvattar til að njóta síðasta heila dagsins okkar saman til hins ítrasta, því í raun er þessi dagur eins og uppskeruhátíð. Það er langt síðan fræi var plantað – hugmynd um að fara í sumarbúðir Ölvers – og á síðasta heila deginum er eins og blómið springi út og þá er ekkert að gera nema taka á móti gjöfum lífsins og fagna!
Svo var haldið út í brennó þar sem þær kepptu síðustu leikina í liðakeppninni. Í hádegismat var næringarríkt pastasalat og fengu stelpurnar að velja sér alls kyns grænmeti og meðlæti til að bæta út í. Á eftir var hinn sívinsæli frjálsi tími og fóru flestar út að leika. Skógurinn er svo skemmtilegur, en þar eru litlir göngustígar á milli trjánna og ýmsir leynistaðir. Svo eru berin orðin tilbúin – bláber, krækiber og hrútaber – og stelpunum finnst æði að týna þau. Margar eru búnar að læra að ganga á stultum og slá hvert persónulegt metið á fætur öðru hérna á stéttinni.
Í næsta dagskrárlið tóku þær allar steinana sína sem þær týndu í göngunni í gær og við fórum út í íþróttahús, sem foringjarnir voru búnir að breyta í listasmiðju. Á gólfinu var búið að raða upp málningu í öllum regnbogans litum, finna til pensla og svampa, og gátu stelpurnar málað steinana sína og málverk á stórar arkir. Þeim bauðst að gera málaralistina sem rannsókn á eigin skilningi á mismunandi hugtökum, en á veggjunum héngu stór blöð með orðunum ÞAKKLÆTI, VINÁTTA, KÆRLEIKUR, NÁTTÚRA, DRAUMAR HJARTANS & ÆVINTÝRI. Þær gátu fært sig á milli rýma í salnum til að vinna með mismunandi innblástur og sjá hvort & hvernig það myndi hafa áhrif á þeirra myndrænu tjáningu. Það var gaman að sjá alla litadýrðina og fá þeirra skapandi hugarflug fest á blað. Þegar þær voru búnar að mála stukku þær út að leika og var sólin meira að segja aðeins að glenna sig – sem er í fyrsta skipti í þessum flokki og við þökkum fyrir að hafa fundið ljúfa geislana verma kinn.
Í kaffi var mikill fögnuður því eins og í gær var boðið upp á nýbakaðar Ölversbollur (sem þær borðuðu upp til agna í gær og vildu ólmar fá meira), eplabita og að auki karamellulengjur og skúffuköku með bleiku kremi. Þá var þeim tilkynnt að nú væri komið að undirbúningi fyrir veislukvöldið, allar færu í pottinn, herbergi eftir herbergi, klæddu sig í sitt fínasta púss og okkar færustu foringjar myndu bjóða upp á greiðslu og fastar fléttur í salnum. Stelpurnar iðuðu af spenningi og voru líka sprelli-kátar að vita að þær mættu fara aftur út í listasmiðju að mála þar til kæmi að þeim að fara í pottinn. Það var svo fallegt að fylgjast með andrúmsloftinu í húsinu breytast sem á leið og fleiri og fleiri mættu fram í glæsigallanum með fléttað hár. Þær héldu áfram að nýta hvert tækifæri til að leika úti og það eru eins og ferskir frelsis vindar fylgi þeim þegar þær koma skælbrosandi aftur inn í húsið eftir sína töfraleiðangra um svæðið. Ein sagði með djúpri innlifun þegar ég stóð í dyragættinni:
„Ahh, stelpur! Það er svo gott að vera til!“
Ég gæti ekki verið meira sammála. Þegar maður umvefur sig góðu fólki, í nánd við náttúruna, í sameiginlegum takti þar sem gott jafnvægi er á milli strúktúrs og flæðis – þá gerast töfrar og hvert mannsbarn blómstar, áreynslulaust og á sinn einstaka hátt. Það er dýrmæt reynsla og ég vona að stúlkurnar njóti góðs af. Ég veit að við starfsstúlkurnar gerum það og það er engin tilviljun að við komum hingað aftur og aftur… og aftur.
Þegar stelpurnar stigu inn í veislumatsalinn var búið að stilla borðunum upp eins og á veitingahúsi, skreyta þau með dúkum og fljótandi kertaskreytingu og hengja litríkar veifur í loftin. Undir hverjum matardisk var nafn stúlku þ.a. þennan málsverðinn sátu þær með nýjum sessunautum og fengu þannig tækifæri til að kynnast fleirum í hópnum betur. Aftan á nafnamiðanum var vers úr Nýja Testamentinu sem bænakonan les með sínum stúlkum fyrir svefninn. Tveir foringjar léku bráðfyndið leikrit á milli borðanna til að setja tóninn fyrir kvöldið. Í matinn var pítsa og svo hrískökur í eftirrétt og rann máltíðin ljúflega niður og allir fengu eitthvað við sitt hæfi. Á milli rétta fór hvert herbergi út á stétt með sinni/sínum bænakonum í myndatöku. Eftir mat var frjáls tími, líf og fjör.
Næst þegar bjöllunni var dinglað sameinuðumst við allar uppá hátíðarsal í veislukvöldvöku, en þá láta foringjarnir ljós sitt skína skært og bjóða upp á leikhúsveislu, og sýna öll bestu leikritin sem Ölver á að geyma. Stelpurnar skemmtu sér konunglega, skellihlógu á meðan atriðum stóð og pískruðu flissandi hvor við aðra á milli leikrita. Söngvar, gleði og kvöldhugleiðing, og svo lá leið í kvöldsnarl; ávexti, og svo hátta, bursta, pissa. Það var mikil orka í hópnum og áttu stúlkurnar í mestu vandræðum með að ganga rólega og hljóðlega um gangana og í kvöldverkin og voru aftur og aftur óvart farnar að hoppa og skoppa, hrópa og hlæja upp fyrir sig. Svo geislandi og glaðar, og við starfsstúlkurnar studdum þær smátt og smátt að finna ró.
Síðasta kvöldið með herbergisfélögunum og bænakonu er dýrmæt stund, og þó dagarnir hér hafi verið langir og stútfullir af öllum regnbogans upplifunum er alveg hreint ótrúlegt að lokadagur sé næst á dagskrá!
Hjartans kveðjur úr sveitinni,
Áróra