Brottfarardagur runninn upp – ótrúlegt en satt! Stelpurnar sváfu vært í nótt og vöknuðu við hressandi tóna vekjarans. Morgunverður féll vel í kramið að venju og svo fóru foringjar vel yfir dagskrá dagsins, tiltekt og pökkun. Svo stukku allir út í fánahyllingu og íþróttahús að ná í málverkin sín og steinana. Þær fengu góðan tíma til að pakka niður, ná í sundföt og útiföt með dyggri aðstoð foringjanna. Svo fengu þær tie-dye þvottastykkin sín afhent – þvílíkt litrík og skemmtileg!
Ef eitthvað hefur ekki skilað sér með heim, þá fara allir óskilamunir á Holtaveginn og geta verið sóttir þar.
Þá var komið að morgunstund, samsöng og hugleiðingu forstöðukonu. Við ræddum um þakklætisbænina og mikilvægi þess að ekki bara biðja að óskir okkar verði uppfyllar heldur muna að finna þakklætið hið innra, fyrir allar þær gjafir sem lífið hefur þegar fært okkur. Englastyttan gekk aftur um salinn og hver og ein dvalarstúlka og starfsstúlka bað sína þakkarbæn upphátt eða í hljóði. Yndislegt að heyra og finna einlægnina – allar höfðu sannarlega margt að þakka fyrir og hlýja fyllti rýmið. Enn á ný var slegið á djúpa hjartastrenginn í brjósti mínu og tárin brutust fram. Lífið, já, lífð er gjöfult og stundum ólýsanlega fagurt.
Skemmtileg stund rann þá upp – Foringjabrennó! Sigurlið brennókeppninnar var tilkynnt og keppti það leik við foringjana, sem voru komnir í merkta búninga með keppnismálningu í andlitinu, og hlupu inn á leikvöllinn eins og atvinnumenn. Við hituðum upp, peppuðum hvora aðra og smitaðist stemningin til stelpnanna. Æsispennandi leikur þar sem stelpurnar sýndu heldur betur hvað í þeim býr. Kappsemi og liðsheild. Foringjar mörðu sigur að lokum og fönguðu svo sigurliði brennókeppninnar hressilega. Í næsta leik kepptu allar dvalarstúlkur á móti foringjunum sem var svo skemmtilegt og leikvöllurinn iðandi. Þær lögðu sig svo kröftuglega fram, fórnuðu sér til að ná boltanum, stukku fimlega frá ógnandi skotum mótherjanna, miðuðu nákvæmt og skutu sleggjum – og hittu foringjana hvern á fætur öðru. Foringjarnir stóðu sig líka vel, enda margar búnar að keppa marga lokaleiki þetta sumarið og orðnir heitir og sigruðu að lokum.
Þá var komið að síðustu máltíðinni og við stukkum beint yfir í hádegismat þar sem kokkurinn bauð upp á pulsur, sem runnu ljúflega niður. Eftir matinn gerðist kraftaverk og sólin fór að skína! Hvílík tímasetning því nú höfðu stelpurnar síðasta frjálsa tímann fyrir lokastund upp á sal. Rólan, stulturnar, skógurinn og hlíðin. Svæðið iðaði í sólskininu. Á lokastundinni sungu þær uppáhalds Ölvers söngvana og viðurkenningar voru afhentar fyrir hegðunarkeppni, brennókeppni og Ölver’s Top Model. Svo fengu allar stúlkurnar lítinn bækling frá sínum bænakonum, með persónulegri kveðju, nokkrum söngtextum og plássi til að skrifa sjálfar nokkrar minningar frá verunni hér. Þá var komið að kveðjustund, knús og vinaleg orð, og þær fundu sér leið upp í rútu eða til forráðamanna sem sóttu þær hér í Ölver. Gleðin hélt áfram í rútunni og þær sungu saman, spjölluðu eða nutu þess að sitja í kyrrð og ró.
Við starfsfólkið þökkum kærlega fyrir traustið og gefandi samveru með stelpunum ykkar.
Hipp hipp húrra fyrir öllum Ölversstelpum!
Lokakveðja og góðar óskir fyrir komandi tíma,
Áróra