Stelpurnar voru vaktar með tónlist kl. 9 fyrsta morguninn og höfðu þær allar sofið vel og næturvaktin gengið áfallalaust fyrir sig.

Í morgunmat var boðið upp á morgunkorn, súrmjólk og hafragraut. Gert var vel af hafragraut en hann var kláraður alveg upp til agna og því ljóst að við þurfum að gera mun meiri graut á morgun. Eftir morgunmat var farið út í fánahyllingu og svo farið í hefðbundna morgundagskrá en morgnarnir í Ölveri eru yfirleitt alltaf eins. Eftir fánahyllingu hefst tiltekt og frágangur í herbergjum en í gegnum vikuna fer fram svokölluð hegðunarkeppni þar sem horft er til almennrar hegðunar, kurteisi við hvora aðra og starfsfólk, hvernig gengur að koma ró á á kvöldin (bara róin ekki hvernig gengur að sofna) og svo hvort þær haldi herbergjunum snyrtilegum. Á hverjum morgni gefst tími til að taka til áður en starfsmaður fer hringinn og lítur inn í öll herbergin. Klukkan 10:30 er svo morgunstund og að henni lokinni er haldið í brennó fram að hádegi. Á morgunstundinni þennan morguninn fengu stúlkurnar að heyra um sögu Ölvers og sögu Kristrúnar Ólafsdóttur sem stofnaði Ölver en við eigum Kristrúnu mikið að þakka fyrir þennan frábæra stað sem við eigum í dag.

Í hádegismat var boðið upp á grænmetisbuff, couscous og salat sem vakti mikla lukku. Það mátti heyra upphrópanir á borð við „Mmmmm!“, „VÁ hvað þetta er gott, ég borðaði fjögur!“ og „þetta eru bestu buff sem ég hef nokkurn tímann smakkað“.

Eftir hádegismat var farið í svokallaðan tuskuleik. Hann er frekar erfitt að útskýra í stuttu máli og læt ég stelpunum ykkar eftir að segja ykkur betur frá þegar þær koma heim. Í grunnin snýst hann um að þær flakka um svæðið og leysa ákveðnar þrautir á meðan foringjar eru á hlaupum og reyna að klukka þær og hafa af þeim stig svo þær gætu þurft að endurtaka sumar þrautir til að ná að klára leikinn. Í þessum leik eru allir fullir þáttakendur, stelpurnar allar sem ein og starfsfólkið líka, m.a.s. eldhússtarfsfólkið og því mikið stuð og líf á víð og dreif um svæðið og vakti þetta mikla lukku.

Því næst var haldið í kaffi og í þetta sinn var boðið upp á rice crispies kökur, kanilsnúða og smurt brauð og ávexti fyrir þær sem voru extra svangar. Hópurinn hefur upp til hópa borðað mjög vel og því ljóst að stelpurnar eru á fullu að nýta orkuna sína og fylla vel á tankinn í hverjum matartíma.

Eftir kaffi var boðið upp á aðeins rólegri dagskrá eftir hlaup og fjör fyrripartsins. Stelpunum var boðið að fara í heita pottinn og fóru herbergin saman. Þær sem ekki höfðu áhuga á pottinum fóru þó í sturtu til að skola af sér enda búið að vera mikið um útiveru og hreyfingu. Samhliða pottaferðum var boðið upp á spil, perlur, vinabönd, twister o.fl. auk þess að stelpunum gafst tími fyrir frjálsan leik, spjall inni á herbergi og annað sem þeim datt í hug. Þær voru ótrúlega duglegar að finna sér eitthvað við hæfi auk þess að herbergin blönduðust í spjall og þær lögðu sig fram við að kynnast hinum enn betur. Einhverjar nutu einnig útiveru en veðrið lék ekki alveg eins vel við okkur og í gær, heldur kaldara var í lofti og því margar sem sóttu í rólegheit inni við.

Í kvöldmat var boðið upp á pítu og fengu þær sjálfar að raða í sína. Eftir kvöldmat gafst svo tími fyrir smá frjálsan tíma áður en haldið var á kvöldvöku. Á kvöldvöku voru það stelpurnar í Lindarveri sem brugðu á leik og skemmtu hinum. Hugleiðing kvöldsins fjallaði svo um bænina og þakklæti og þær hvattar til að muna eftir og veita því athygli sem þær geta verið þakklátar fyrir.

Því næst fóru stelpurnar að hátta og koma sér í ró. Þegar flestar voru komnar upp í brutust út læti frammi á gangi þar sem foringjarnir trylltu lýðinn með tónlist, trommuslætti og köllum og blésu til náttfatapartýs. Það var mikið sungið, dansað og mikið stuð. Í lokin léku foringjar leikrit sem endaði með því að þær útdeildu ís og var stepunum sögð saga yfir ísnum til að koma aftur ró á hópinn. Eftir allt fjörið fóru bænakonurnar svo inn á herbergin með sínum stelpum og spjölluðu og lásu sögu til að koma þeim almennilega í ró. Stelpurnar voru aðeins lengur að sofna en fyrsta kvöldið enda spennustigið rifið hátt upp í náttfatapartýinu og því töluverður galsi í stelpunum en það gekk þó ágætlega. Deginum var þó ekki lokið hjá starfsfólkinu þar sem við tók undirbúningur fyrir næsta dag þar sem stelpurnar verða vaktar með smá óvæntu… Hlakka til að segja ykkur betur frá því á morgun.

Ég minni svo aftur á myndirnar frá deginum en þær má finna hér: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72177720309520907

Bestu kveðjur,

Unnur Rún, forstöðukona.