Jæja, þetta óvænta sem ég nefndi.. Jú, jólin. Við héldum jól í dag! Okkur þótti einfaldlega of langt milli jóla svo við ákváðum að bæta einum jólum við svona miðja vegu frá þeim síðustu og fram að þeim næstu…

Stelpurnar voru því vaktar af jólatréi og jólastelpu með jólatónlist og þeirra beið jólaskreyttur matsalur í morgunmatnum. Morgunmaturinn var sá sami en í þetta skipti gerði ráðskonan okkar meira en nóg af hafragraut fyrir alla í ofanálag við það morgunkorn og súrmjólk sem var einnig í boði. Síðan fór af stað hin hefðbundna morgundagskrá sem ég fór yfir í færslunni í gær. Á morgunstund flettum við saman í nýja testamentinu og komumst að því að jólaguðspjallið, sem þær þekkja svo vel úr helgileiknum, er einmitt að finna í þeirri merkilegu bók. Við lásum það saman og lærðum nokkur góð gullkorn í gegnum það. Í bland voru svo sungin jólalög svo þær fengju jólastemninguna beint í æð.

Eftir morgunstund var haldið í brennó og svo þaðan í hádegismat. Í hádegismat var boðið upp á hakk og spagettí, salat og hvítlauksbrauð og eins og annað rann það vel ofan í stelpurnar. Eftir hádegismat fengu þær svo að skyggnast betur inn í ævintýraheim jólanna. Til að byrja með skreyttu þær piparkökur sem biðu þeirra svo í kaffinu og týndust þær svo smám saman af stað í átta manna hópum, með bundið fyrir augun, inn á svokallaðan jólaævintýragang þar sem jólaálfar vísuðu þeim veginn. Þar kíktu þær í heimsókn til Grinch, Ólafs, Grílu, lifandi jólatrés og Kevins úr Home alone. Eftir þetta jólaævintýri héldu þær í kaffitíma þar sem piparkökurnar biðu en auk þess var boðið upp á pizzasnúða og muffins.

Eftir kaffitíma var slegið til hæfileikakeppni þar sem stelpurnar fengu tækifæri til að láta ljós sitt skína. Engin var skyldug til að taka þátt heldur var það val og voru þær hvattar til að láta hugann reika um þá ýmsu hæfileika sem við höfum að geyma. Það stóð ekki á fjölbreytninni en atriðin sem þær göldruðu fram samanstóðu af söng, dansi, hljóðfæraleik, sirkus, fimleikum, ljóði, myndlist, töfrum, tungufimi og svona mætti áfram telja.

Því næst gafst tími fyrir frjálsan leik fram að kvöldmat á meðan Hlíðarver æfði atriði fyrir kvöldið. Í kvöldmat var boðið upp á grjónagraut sem kynntur var inn sem jólagrautur og með honum var boðið upp á smurt brauð.

Kvöldvakan var svo með hefðbundnu sniði og eins og áður sagði var það Hlíðarver sem sá um skemmtiatriði kvöldsins. Í framhaldi af kvöldvökunni var svo boðið upp á bíókvöld þar sem horft var á Home alone til að toppa jóladaginn og var boðið upp á popp og ávexti með.

Eftir mikla dagskrá langt fram eftir kvöldi alla dagana hingað til eru selpurnar margar orðnar þreyttar og var því ákveðið að leyfa þeim að sofa lengur þessa nóttina og fá því útsof í fyrramálið.

Meira á morgun,

Unnur Rún, forstöðukona.

Ps. Minni aftur á myndalinkinn https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/53026401318/in/album-72177720309520907/