Í nótt tókum við niður jólin og Ölver því aftur komið í hefðbundið horf þegar stelpurnar vöknuðu. Eftir mikla keyrslu fengu stelpurnar að sofa klukkutíma lengur en sumar voru þó vaknaðar aðeins fyrir vakningu og röltu hljóðlega fram í matsal þar sem þær gátu dundað sér við að perla, lita, gera vinaarmbönd o.fl. Eftir vakningu var morgundagskrá svo með hefðbundnu sniði. Morgunmatur, fánahylling, tiltekt, morgunstund og brennó. Stelpurnar voru ótrúlega áhugasamar og spurðu mig spjörunum úr á morgunstund og ljóst að hér eru á ferð forvitnar og fróðleiksfúsar stelpur.

Í hádegismat var boðið upp á ávaxtasúrmjólk, grjónagraut og smurt brauð. Eftir hádegi var svo slegið til Ölversleika. Þar fengu stelpurnar fyrst smá undirbúningstíma þar sem þær útbjuggu liðsbúning á liðið fyrir komandi keppni. Því næst var þeim hópað saman út þar sem þær kepptu í hinum ýmsu greinum, s.s. brekkuhlaupi, stígvélasparki, sippi, rúsínuspýtingum, hver væri með breiðasta brosið o.fl.

Í kaffitímanum var boðið upp á lummur, súkkulaðibitamuffins og pizzasnúða og í lok kaffitímans var svo settur af stað leynivinaleikur. Stelpurnar drógu nafn á einni úr hópnum sem verður þeirra leynivinur næstu tvo daga. Til að fullvissa okkur um að allar vissu hverri þær ættu að senda stóðu þær upp hver af annarri og kynntu sig fyrir hópnum. Hópurinn hefur þó almennt blandast vel og eru þær duglegar að leika og kynnast milli herbergja.

Eftir kaffitíma var aftur boðið upp á ferð í heita pottinn og sturtu fyrir þær sem það vildu. Samhliða því gafst tími til að föndra póstkassa fyrir leynivinaleikinn og föndra eitthvað til að senda leynivininum. Sólin lét líka sjá sig og allt í einu hitnaði mikið í veðri. Stelpurnar voru hvattar til að vera úti að leika og hoppukastala slegið upp en leynivinaleikurinn átti hug þeirra allan og því margar sem sóttu í föndrið.

Í kvöldmat var boðið upp á svokallaðan kornflakeskjúkling, franskar, sósu og salat. Því næst var haldið á kvöldvöku þar sem Hamraver sá um skemmtiatriði kvöldsins. Í lok kvöldvökunnar birtist allt í einu „lítil stúlka“ (ein af foringjunum í líki lítillar stúlku) og sagði stelpunum frá hættu sem steðjaði að sem var inngangur að svokölluðum ævintýraleik. Ævintýraleikur í Ölveri er í grunninn góður gamaldags eltingaleikur með ævintýraþema. Þema leiksins var tekið úr spilinu Varúlfur og hlupu stelpurnar um allan skóg í leit að persónum úr spilinu, ástarenglinum, norninni og sjáandanum á meðan þær forðuðust að vera klukkaðar af varúlfunum. Eftir að leiknum var lokið komu stelpurnar aftur inn í Ölver þar sem þeirra beið kaffihúsakvöld í matsalnum þar sem þær fengu kökubita og heitt kakó til að ná sér niður eftir öll hlaupin. Þar fengu þær svo að heyra rólega sögu sem heitir „Þú ert frábær“ og er uppáhalds saga margra starfsmanna get ég sagt ykkur, algjört gull sú saga.

Þetta eru búnir að vera ótrúlega skemmtilegir dagar með stelpunum ykkar hingað til og er ég viss um að það verði þannig áfram. Veðrið á að leika við okkur næstu daga og biðjum við að svo megi verða og stefnum á mikla útidagskrá og sumargleði.

Meira á morgun,

Unnur Rún, forstöðukona.