Veðrið lék sko heldur betur við okkur þennan daginn! Stelpurnar voru vaktar á venjulegum tíma, kl. 9, og var morguninn með hefðbundnu sniði (sem ég hef farið yfir í fyrri færslum). Í hádegismat var boðið upp á tortillas þar sem stelpurnar fengu sjálfar að setja í kökurnar sínar og gátu því valið svolítið sjálfar. Eftir hádegismat var haldið í leiðangur niður að á sem liggur hérna rétt utan við lóðamörk Ölvers. Um er að ræða straumlitla á sem stelpurnar geta fengið að busla, vaða og synda í og þar sem veðrið var eins og það gerist best voru þær lítið að kippa sér upp við kalt vatnið.

Þegar heim var komið beið þeirra kaffitími og þennan daginn var boðið upp á bananabrauð, karamellulengjur og kökubita. Auk þess var boðið upp á djús og vatn og voru þær duglegar að drekka enda búnar að baða sig í sólinni síðustu klukkutímana.

Eftir kaffi var boðið upp á brjóstsykursgerð. Þeim var skipt í þrjú holl og fékk hvert holl að gera tvær tegundir. Samhliða því var frjáls tími þar sem stúlkurnar voru hvattar til að vera úti í góða veðrinu en eins var í boði föndur, sturta fyrir þær sem það vildu, spjall, tónlist og almenn notalegheit. Það er ótrúlega gaman að fylgjast með þeim sökkva sér í þennan leynivinaleik! Margar hverjar virðast vera stöðugt að, hnýtandi vinaarmbönd, teiknandi myndir, skrifandi skilaboð, týnandi blóm og ýmislegt fleira. Það er þeim greinilega mikilvægt að gleðja sína leynivinkonu!

Í kvöldmat var svo boðið upp á fiskibollur og kartöflubáta. Í framhaldi af kvöldmat var svo haldið á kvöldvöku þar sem bæði Fjallaver og Fuglaver sáu um skemmtiatriði kvöldsins. Kvöldvakan var því aðeins í lengri kanntinum en stelpurnar skemmtu sér konunglega yfir skemmtiatriðunum í bland við hina ýmsu hreyfisöngva.

Eftir mikinn hasar og ævintýrafjör síðustu daga var þessi dagur aðeins í rólegri kanntinum sem var mjög kærkomið fyrir allar. Í ævintýraflokki eigum við þó erfitt með að sitja á okkur með að brjóta upp dagskránna á kvöldin og því var kvölddagskránni ekki lokið eftir kvöldvöku. Eftir kvöldvökuna var stelpunum því boðið að klæða sig í útiföt og halda út að aparólu með okkur. Þar vorum við búnar að kveikja upp í eldstæði og var boðið upp á notalega stund í kringum eldstæði þar sem stelpurnar fengu að grilla sykurpúða. Útilegustemmningin var tekin alla leið, gítarinn gripinn fram og tóku stelpurnar vel undir í söng. Þær sem vildu gátu einnig leikið sér á leiksvæðinu í kringum aparólusvæðið og nutu þær sín í botn úti í frelsinu á þessu fallega sumarkvöldi.

Þessi dagur var eins og sumardagar gerast bestir og ég held að þetta verði varla betra hérna í Ölveri! Sól, sumar, eðal stelpur, góður hópandi, jákvæðni, kærleikur og stuð og stemmning allt umlykjandi!

Það fer nú að síga á seinni hlutann hjá okkur og minni ég hér aftur á myndahlekkinn (https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72177720309520907/page2). Stelpurnar eru búnar að upplifa ófá ævintýrin þessa vikunar hérna í Ölveri og hvet ég ykkur öll til að skoða myndirnar með þeim þegar þær koma heim. Þær munu hafa frá ótrúlega mörgu að segja og hreinlega spurning hvort þær verði búnar að gleyma einhverju sem þær upplifðu fyrstu dagana sem væri þá frábært að rifja upp með þeim með því að renna yfir myndirnar saman.