Síðasta heila daginn í Ölveri köllum við veisludag og heiðraði sólin okkur aftur með nærveru sinni. Um morguninn fórum við í gegnum hefðbundna Ölversdagskrá eins og áður. Á morgunstundinni var komið að því að uppljóstra því hver væri leynivinkona hverrar og ræddi ég við stelpurnar út frá setningunni „Sælla er að gefa en þiggja“ (Postulasagan 20:35) í því samhengi. Við ræddum um það hvernig gjafir geta verið svo margt annað en bara hlutur sem keyptur er úti í búð og hve mikil gleði getur fylgt því að gefa og gleðja aðra. Eftir morgunstund var svo komið að lokaumferð brennókeppninnar þar sem skorið var úr um hvaða lið sigraði keppnina og myndi þar með vinna sér inn keppnisrétt í leik gegn foringjunum næsta dag.

Í hádegismat var boðið upp á pastasalat og eftir mat var öllum stelpunum smalað út í smá göngu út fyrir svæðið. Á meðan varð hluti af starfsliðinu eftir og setti upp „Slip and slide“ vatnsrennibraut fyrir stelpurnar sem beið þeirra óvænt þegar þær komu heim úr göngunni. Hún vakti mikla lukku í sólinni en þó voru nokkrar sem tóku með sér nokkrar rispur í farteskinu eins og gengur og gerist eftir svona fjör. Þær létu það þó ekki á sig fá og nutu sín vel. Kaffið var svo borið fram úti enda ekki annað hægt í þessu veðri og var það sko heldur betur ekki af verri endanum og mjög viðeigandi fyrir veisludag. Boðið var upp á brauðbollur, skonsur, súkkulaðiköku með bleiku kremi og súkkulaði conflakes kökur.

Eftir kaffi fóru stelpurnar í sturtu fyrir veislukvöld auk þess að boðið var upp á pott í sólinni sem þónokkuð margar þáðu og nutu. Svo var að hafa sig til fyrir veislukvöldið og fléttuðu starfsmenn hvern hausinn á fætur öðrum auk þess að stelpurnar flökkuðu á milli herbergja, spjölluðu, hjálpuðust að við að hafa sig til, lánuðu föt, andlitsmaska, teygjur o.fl. á milli svo hver og ein gæti notið sín í botn.

Um klukkan sjö var hringt inn í veislukvöldverð og stelpurnar þá allar orðnar svo fínar, komnar í sparigallann, búnar að setja upp skartið, með fínt í hárinu og sumar hverjar búnar að punta sig í framan og geisluðu þær allar af spenningi og ánægju. Á veislukvöldi er borðaröðun breytt í matsalnum og stelpunum raðað af handahófi í sæti svo þær sitja ekki með þeim vinkonum sem þær komu með heldur blandast með öðrum. Á þessum tímapunkti var hópurinn búinn að blandast mjög vel og var ekki annað að sjá en að stelpunum þætti þetta skemmtileg tilbreyting. Í veislumatinn var boðið upp á pizzu eins og stelpurnar gátu í sig látið og borðuðu þær mjög vel (vægt til orða tekið varðandi sumar þeirra). Eftir kvöldmat gafst svo smá frjáls tími á meðan foringjarnir borðuðu og undirbjuggu skemmtiatriði kvöldsins. Því næst var blásið til veislukvöldvöku þar sem stelpurnar sungu hástöfum í bland við stórskemmtileg leikrit frá foringjunum. Þegar líða tók á kvöldvökuna mættu þangað óvæntir og óvelkomnir gestir.. lúsmýið.. Það er víst ekki eintóm sæla að fá gott veður í Ölveri því þá eiga þessir agnarsmáu gestir það til að láta sjá sig og trufla. Stelpurnar eru því sumar nokkuð illa bitnar eins og þið eruð sennilega búin að sjá þegar þið lesið þetta.

Eftir kvöldvöku var komið að því að koma stelpunum í ró og eiga í síðasta sinn (í bili allavega) notalega stund með bænakonunni sinni. Þegar ágætis ró var komin á húsið söfnuðumst við starfsfólkið saman fram á gang, gripum fram gítarinn og sungum fyrir þær róleg lög sem smám saman færðu þær inn í draumalandið.

Á brottfarardag gekk svo ágætlega að undirbúa heimför og fór pökkun fram fyrir hádegi. Því næst var morgunstund þar sem farið var stuttlega yfir það sem þær höfðu lært þessa vikuna og það hvernig þær geta haldið áfram að gefa Guði tíma og hvernig þær geta reynt að muna eftir honum eftir að heim er komið. Svo var það foringjabrennó þar sem Tímon, sigurlið vikunnar, gaf ekkert eftir og átti stórleik gegn foringjunum. Foringjarnir fóru þó með sigur úr býtum enda margfaldir Ölversmeistarar og ofurefli við að etja! Að lokum var svo spilaður brennóleikur þar sem allar stelpurnar kepptu saman á móti foringjum.

Því næst var hádegismatur en boðið var upp á grillaðar pulsur úti í góða veðrinu. Að lokum var svo lokastund með verðlaunaafhendingu og Ölvers-Eurovisionlagi ársins áður en haldið var í rútuna með hraði. Í þeim gögnum sem ég fékk í hendurnar í vikubyrjun stóð að brottför væri áætluð kl. 15 en í þeim gögnum sem send voru á foreldra stóð að brottför væri áætluð kl. 14 og heimkoma á Holtaveg kl. 15. Þetta misræmi kom ekki í ljós fyrr en seint og um síðir sem skýrir seinkun á heimkomu og biðjumst við velvirðingar á því! Ég vona þó að þetta hafi ekki sett stórt strik í reikninginn á dagsskipulaginu hjá ykkur og að þið hafið fengið glaðar stelpur í fangið þegar rútan mætti loks á svæðið!

Það er búið að vera ótrúlega gaman að fylgjast með hversu mörg ný vináttubönd hafa myndast síðustu daga og það verður spennandi að sjá hvort einhver þeirra lifi áfram, út fyrir veggi Ölvers. Takk fyrir að treysta okkur fyrir börnunum ykkar! Ég vona að okkur hafi tekist að veita þeim ævintýralega skemmtilega viku og að það sem þær hafi lært verði þeim gott veganesti út í lífið. Ég vona að bitin verði fljót að gróa og að eftir sitji skemmtilegar minningar sem fylgi þeim alla tíð! Ég bið að heilsa þeim öllum og hver veit nema að við sjáumst aftur síðar í Ölverinu góða 🙂

 

P.S. Hægt er að vitja óskilamuna í Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK við Holtaveg. Eftir 1. október áskilja sumarbúðirnar sér rétt til að ráðstafa ósóttum óskilamunum. Ég vil benda á að stundum finnast óskilamunir við þrif eftir að rútan leggur af stað og þeir berast þá ekki á Holtaveg fyrr en með næsta hópi, viku síðar.