miðvikudagur 12. júlí
Morguninn var með hefðbundnu sniði þennan morguninn. Eða að mestu leyti. Matsalurinn var kominn í sparibúning og afmælisskraut upp um alla veggi. Einn foringinn átti nefnilega 22 ára 7 mánaða og 244 daga afmæli og var því tilvalið að halda upp á það og stelpunum öllum boðið. Annars gekk morguninn eins og vanalega. Morgunmatur, fánahylling, tiltekt í herbergjum, Biblíulestur og brennó. Afmælisbarnið lét þó heyra í sér reglulega. Fanney ráðskona bauð svo upp á dýrindis kjúklinga-kókos-karrýrétt sem stelpurnar borðuðu af bestu lyst.
Afmælisbarninu var þá nóg boðið að enginn væri veisluklæddur í tilefni dagsins. Því var blásið til: Miss Universe Ölver. Herbergin voru saman og sýndu förðunar-, hárgreiðslu- og tískufærni sína. Herbergin þurftu að vera með atriði á sýningunni og fyrirsæturnar spáseruðu um við tónlist og lófatak.
Eftir bakkelsispásu var efnt til tuskuleiks. Það er gamalgróin Ölvershefð þar sem stelpurnar hlaupa um svæðið og leysa miserfiðar þrautir. Fyrir þær þrautir sem þær leysa fá þær strik á handarbakið og vinnur sú stelpa sem er fyrst að safna öllum litunum. Hins vegar er ekkert svo einfalt. Foringjar hlaupa á eftir þeim með tuskur og stroka út eitt strik ef þeir ná þeim.
Á kvöldvöku voru Lindaver og Skógaver sáu um skemmtun á kvöldvökunni. Afmælisbarnið var hins vegar ekki tilbúið að hætta hátíðarhöldunum. Stelpurnar eltu því afmælisbarnið í kóngalínu niður að aparólu þar sem brekkusöngur og sykurpúðar biðu þeirra. Þegar komið var upp í hús aftur var búið að umturna matsalnum og dregið fyrir. Við tók æsispennandi mafíuleikur. Þær komu sér svo fljótleg í háttinn og bænakonurnar komu þeim í ró.
Ölverskveðja,
Kristrún Guðmunds, forstöðukona
Matseðill
morgunmatur: morgunkorn, hafragrautur og súrmjólk
hádegi: kókos-karrý-kjúklingaréttur með hrísgrjónum
kaffi: skinkuhorn og subwaykökur
kvöldmatur: kjöt í karrý og hrísgrjón