Fimmtudagur  – 13. júlí

Stelpurnar fengu að sofa örlítið lengur í dag eftir dagskránna í gær. Veðrið var ekki eins gott eins og undanfarna daga, svolítið hvasst og skýjað. Morguninn gekk sinn vanagang og hegðunarkeppnin er enn þá æsispennandi.

Eftir hádegismat var pöbbkviss þar sem herbergin voru saman í liði. Spurningarnar voru úr öllum áttum og eitthvað við allra hæfi. Dæmi um spurningar: hvað merkir orðið hallelúja? hvað heitir veitingastaðurinn sem Páll Óskar var í samstarfi við þegar hann sagði „þetta er galið gott“ og margt fleira. Dagskráin hefur verið þétt undanfarna daga svo úr varð róleg dagskrá eftir kaffi. Þá voru stöðvar sem frjáls þátttaka var í. Boðið var upp á karaoke, vinabönd, perlur og heitan pott.

Á kvöldvökunni áttu Hlíðarversstelpur leiksigur og sáu alfarið um skemmtiatriði kvöldsins. Við fengum heimsókn frá KSS. KSS eða Kristileg skólasamtök, er félag sem er með öflugt starf fyrir 15-20 ára á vegum KFUM og KSH. Undanfarin ár hefur stjórn KSS komið og kynnt starfið í unglingaflokkum. Þetta er góður vettvangur fyrir þá sem vilja upplifa sumarbúðastemminguna að vetri til. Nánast allt starfsfólk sumarbúðanna hefur verið í KSS og mælum við eindregið með því að skoða þetta með stelpunum í haust.

Á miðri kvöldvökunni tók myndband yfir lagaglærurnar okkar. Þar birtist sögupersóna úr mafíuleiknum frá því í gærkvöldi og kynnti fyrir þeim leikinn, ÆVINTÝRALEIK FLOKKSINS.
Þær stukku af stað og byrjuðu strax að leysa leikinn. Þær þurftu að finna 3 stöðvar en að vara sig á vörðunum sem komu hiklaust á eftir þeim.

Eftir spennuþrunginn leik komu þær inn í kvöldkaffi. En auðvitað ekkert venjulegt kvöldkaffi. Þeim var boðið á ísbar Ölvers. Nóg af ís, sósu og nammikurli fyrir alla. Eftir allan hasarinn tók lengri tíma að fá ró í húsið en við teljum að þær hafi farið sáttar í háttinn.

Ölverskveðjur,
Kristrún Guðmunds. forstöðukona

Frekari upplýsingar um KSS er að finna hér.

Matseðill
morgunmatur: morgunkorn, hafragrautur og súrmjólk
hádegi: hamborgarar og franskar
kaffi: sjónvarpskaka, rice krispies og pizzasnúðar
kvöldmatur: pastasalat