laugardagur – 15. júlí
Í tilefni veisludags var vakning morgunsins var með óhefðbundnu sniði. Foringjarnir smöluðu þeim út á stétt og þegar þar var komið stóðu foringjar tilbúnir að sprauta vatni yfir þær. Afar frískandi byrjun á deginum og þær mættu glaðvakandi í morgunmat (sem var alveg eðlilegur).
Í hádegismatnum kynntum við nýjan leik sem við höfum ekki farið í áður. Svokallaður Hunger Games leikur. Hann er þannig að allar fá þær eina þvottaklemmu sem þær festa á sig, sú stelpa sem stendur uppi með flestar klemmur vinnur. Leikurinn snýst um útsjónasemi og að mynda lið en það má þó svíkja liðið. Stelpurnar tóku þessum leik mjög alvarlega og var sko hart barist uns þrjár voru eftir sem unnu leikinn.
Veisludagurinn er í miklu uppáhaldi hjá öllum Ölversstelpum. Hann er fyrri hluta dags eins og hver annar dagur. Seinni partinn fara stelpurnar þó að gera sig til. Allir fara í sturtu og/eða pottinn. Eftir það bjóða foringjar upp á fléttur og allir fara í sparifötin sín. Við settum upp spegla í matsalnum svo þær hefðu nú nóg pláss til að mála sig. Eftir dágóða stund, því það er sko ekkert grín að gera sig til, var stelpunum boðið að koma aftur inn í matsal. Matsalurinn skartaði auðvitað sínu allra fegursta í tilefni dagsins. Undir öllum diskum voru litlir miðar. Aftan á þá eru rituð vers úr Biblíunni sem bænakonurnar fletta upp með þeim fyrir háttinn. Þær renndu pizzunum niður af bestu lyst.
Stelpurnar sjá vanalega um skemmtiatriði á kvöldvökum en á veislukvöldvöku taka foringjar við keflinu. Í bland við söng og dans stigu foringjar á stokk í leikritum kvöldsins. Þetta er sívinsæll viðburður og gömul og góð hefð í Ölveri. Hins vegar kom upp smá deila upp milli bænakvennanna. Því þær allar heldu því staðfastlega fram að þær væru sko með laaaang besta herbergið. Því var bara ein leið til að útkljá þetta mál. Brennó. Við hlupum þá allar út í íþróttahús þar sem herbergin kepptu hvort við annað með bænakonunum sínum í liði. En það er alltaf einhver sigurvegari og voru það Hamraversstelpurnar í þetta skiptið.
Eftir allar uppákomur dagsins þurfti að róa þær með kvöldkaffi svo þær gætu farið og varið síðasta kvöldinu með bænakonunum sínum.
Ölverskveðjur,
Kristrún Guðmunds. forstöðukona
Matseðill
morgunmatur: morgunkorn, hafragrautur og súrmjólk
hádegi: sænskar kjötbollur, kartöflur og brún sósa
kaffi: kanilsnúðar og rice krispies
kvöldmatur: pizza