Það var eftirvænting í loftinu þegar rútan lagði af stað frá Holtavegi í sól og symaryl, og sem leið lá í Ölver. Það var strax létt og kát orka í hópnum og mikið spjallað og hlegið á leiðinni. Þegar við komum á leiðarenda komum við allar saman inn í matsal og forstöðukona bauð stelpurnar velkomnar og fór yfir praktísk atriði á staðnum. Þetta er stórt heimili sem við sköpum saman næstu 6 daga. Það er svo notalegt þegar við lifum í takt og sköpum andrúmsloft vinsemdar og virðingar. Þá kynntu foringjar og aðstoðarforingjar sig og skiptu stelpunum í herbergi. Stelpurnar komu sér vel fyrir í herbergjunum og gerðu sínar vistaverur notalegar fyrir komandi daga.
Stuttu síðar var hringt inn í hádegismat, þar sem þær fengu að kynnast Ölvers-hefðinni; að syngja söng fyrir matinn og þakka fyrir sig með fallegu kalli á eftir. Það er mikil stemning að fagna gjöfum lífsins saman! Þær gæddu sér á skyri og pítsabrauði, sem rann ljúflega niður.
Eftir matinn var frjáls tími og fóru margar út að leika sér, enda margt skemmtilegt að gera og skoða hér á stóra svæðinu okkar. Svo leiddu foringjar allan hópinn í göngu um svæðið til að kynna þeim allt sem hér er í boði og enduðum niðri á túni þar sem við fórum í nokkra nafnaleiki til að kynnast betur og svo í nokkra skemmtilega leiki þar sem við fengum að sprikla svolítið, fíflast og hafa gaman. Það er unun að sjá hvað stelpurnar eru til í að leika sér og njóta augnabliksins, og ég hef held ég aldrei séð hóp lenda svona hratt og vel.
Þá var komið að síðdegissnarli, þar sem ráðskona og bakari buðu upp á smurð brauð og jógúrtköku. Hvílík sæla að vera í sumarbúðum!
Í lok drekkutímans var næsti dagskrárliður tilkynntur – Ölvers Top Model, þar sem hverju herbergi var úthlutað , stórum plastpoka, kaffifilter og gúmmíhanska, og þeim var frjálst að bæta við efni úr eigin safni líka. Hvert herbergi valdi eina úr hópnum sem sinn listgjörning, og sköpuðu saman glæsilegar og frumlegar hárgreiðslur og dress. Til að njóta veðurblíðunnar var sýningin haldin úti á stétt, þar sem dómarar utan úr heimi (foringjar í dulargervi) voru að sjálfsögðu mjög miklar týpur og furðufuglar, glens og grín á hverju strái. Með stemningstónlist undir gengu fyrirsæturnar dregilinn, skelltu sér í gírinn og sameinuðust svo með sínum hóp í myndatöku og stórskemmtilegu viðtali hjá dómnefnd. Magnaður sköpunarkraftur hjá þessum stelpum og gaman að sjá hvernig þær unnu úr hráefninu á sinn einstaka hátt!
Eftir það var frjáls tími, þar sem í boði vera úti að leika eða eiga ljúfar stundir á herbergjum. Það er sannarlega notalegt að sitja hér í brekkunni og heyra gleðiraddir úr öllum áttum, hlátrasköll og skræki. Sólin skín og létt gola leikur við okkur.
Í kvöldmat fengu stelpurnar pítu með alls kyns brakandi hollu og fersku áleggi og þær bókstaflega hrópuðu upp fyrir sig þegar það var tilkynnt! Þær borðuðu vel og lagðist máltíðin heldur betur vel í mannskapinn og eru þær duglegar að næra sig. Þá fengu þær frjálsan tíma og fóru margar út að leika. Næst var haldið upp í sal á kvöldvöku þar sem við sungum söngva hástöfum og dönsuðum með. Eitt herbergi hafði fengið tíma fyrir kvöldmat til að undirbúa atriði kvöldsins og fengum við að horfa á bráðfyndið leiktrit og einn leik þar sem sjálfboðaliðum var boðið að taka þátt. Þá fengum við alveg einstakan frásögn á sögu Ölvers og Kristrúnar, sem stofnaði Ölver! Ein starfskonan var í upphlut, sýndi fornar myndir af starfseminni og spilaði íslenskan þjóðsöng.
Síðasti leikur dagsins var Bænakonuleitin, en aðstoðarforingjarnir voru týndir útí skógi og stelpurnar þurftu að leita að þeim til að fá vísbendingu um hvaða foringi yrði þeirra Bænakona. Bænakonan er sú sem hjálpar stúlkunum í sínu herbergi í háttinn og á með þeim notalega stund fyrir svefninn og færir ró, t.d. með spjalli, lestri og söng. Þær voru hoppandi kátar, því auðvitað fengu allir bestu Bænakonuna!
Stelpurnar fengu sér svo kvöldsnarl, epli og perur, og gerðu sig tilbúnar í háttinn. Flestar voru fljótar að sofna eftir langan og erilsaman dag á meðan aðrar nutu góðs af ljúfri nærveru Bænakvenna, í leik og spjalli, því spenningur getur verið töluverður á fyrsta kvöldi í Ölveri.
Allan daginn ómaði húsið af glaðværum röddum, hlátrasköllum og tiplandi tám og erum við starfsstúlkur sammála um að dagurinn hafi gengið eins og í sögu.
Með þakklæti og hlýju,
Áróra forstöðukona