Þá er annar dagur upp runninn! Fyrsta nóttin gekk vel og stelpurnar náðu góðri hvíld eftir erilsaman dag, en sumar fundu fyrir truflun frá lúsmýi sem lét á sér kræla þegar kvöldaði. Foringi vakti þær með skemmtilegri tónlist á ganginum og gekk á milli herbergja og spjallaið við blíðlega við þær. Sumar voru svo sprækar og vöknuðu syngjandi með tónlistinni! Þá var bara að klæða sig og græja sig fyrir daginn.
Þær sem eru viðkvæmar fyrir bitum hafa fengið góða þjónustu frá foringjum með kláðastillandi froðu frá morgni til kvölds.
Morgundagsskráin er ávallt sú sama hér í Ölveri og hefur reynst frábær leið til að hefja daginn. Í morgumat fengu stelpurnar hafragraut, kornfleks, seríos og með því. Eftir mat fóru þær út í fánahyllingu, þar sem sunginn er söngur og fáni dreginn að húni til að fagna nýjum degi. Þessi dagur hófst með mildu, skýjuðu veðri – en fljótt reif hann af sér og sólin fór að skína.
Þá fengu stelpurnar tíma til þess að taka til í herbergjunum sínum og gera sitt rými snyrtilegt fyrir daginn.  Þá komum við saman í samkomusalnum í morgunstund. Við sungum söngva og þessi samvera er líka tækifæri til að sitja saman í ró, færa þakkir og biðja fyrir deginum. Forstöðukona útskýrði hvað það felst í því að vera í listaflokki, þar sem við leggjum áherslu á að gefa stelpunum tækifæri á að spreyta sig á ýmsum skapandi greinum. Við leggjum upp úr að hver og ein njóti þess að skapa á sinn einstaka hátt og við fókusum á einstakleika og andrúmsloft samsköpunar, frekar en samanburð og samkeppni. Einnig ræddi forstöðukona um hvað það þýðir að vera í kristilegum sumarbúðum og að hér í Ölveri leggjum við áherslu á kærleiksríka samveru, vináttu og þakklæti, og allar eru velkomnar, sama hvaða tengingu þær eiga við trúna. Svo sagði hún þeim frá lífshlaupi sínu og sýndi myndir úr eigin lífi, til að blása stúlkunum byr í brjóst og veita andagift. Hver og ein er einstök, dýrmæt og í lagi eins og hún er – og lífið er leiðangur.
Næst á dagsskrá var brennó, en nú var fyrsta lota í formlegri brennókeppni vikunnar, liðin tilkynnt og fjör færðist í leikana. Eftir brennó var hádegismatur, þar sem í boði var….. *trommusláttur* …. Ávaxtajógúrt og brauð!
Þá var frjáls tími og næst þegar hringt var í dagsskrá komum við saman í matsalnum – allar hendur tandurhreinar því…. bakarinn var búinn að gera bolludeig og hver stúlka fékk deigbút til að móta sína einstöku bollu fyrir kaffitímann. Ímyndunaraflið fór á flug og litu fjölmargar skemmtilegar bollur dagsins ljós. Þeim fannst þetta mikið sport og töluðu um þetta sem mest óvænta viðburð dagsins.
Næsti dagskrárliður var stöðvaskiptar sköpunarsmiðjur og voru 2 herbergi saman í hóp. Þá eru hóparnir smærri og stelpunar fá meira rými saman og með foringjum. Á einni stöð hittu stelpurnar kórstjóra uppá sal, þar sem þær fengu raddaða söngþjálfun. Á annari stöð, úti í laut, var ukulele kennsla, þar sem helmingur hópsins fékk ukulele í hönd og spiluðu saman og sungu. Hinn hluti hópsins fór í dimmalimm og lifðu sig sannarlega inn í leikinn. Svo skiptu þær, þ.a. allar fengu að spreyta sig á ukulele. Á þriðju stöðinni fóru stelpurnar í leiklistarleiki, þar sem snerpa, látbragð og samhæfing fengu góða upphitun. Það var algjör bongóblíða og því frábært að geta haft tvær stöðvar úti.
Í kaffinu fengu stelpurnar að gæða sér á sinni eigin bollu-sköpun og svo heimsins bestu kanilsnúðum. Í frítímanum var búið að merkja stóran fleka af stéttinni fyrir utan hús með nafni hvers herbergis og bauðst stelpunum að skreyta sitt svæði með herbergisfélögunum. Þær tóku vel í þetta og á örstundu breyttist gangstéttin í litríkt blóma- og regnbogastræti. Þá var komið að því að undirbúa sig fyrir næsta dagsskrárlið og eins og svo margt í Ölveri var algjört leyndó, en þær áttu að klæða sig í sundfötin undir fötin og kippa með sér handklæði og góða skapinu. Í bongóblíðu lagði hópurinn af stað í göngu niður að læk. Það er notaleg ganga í gegnum svæðið og skóginn. Við lækinn er hægt er að flatmaga á bakkanum, dýfa tánum ofan í eða þess vegna svamla í köldu og frískandi vatninu. Þær voru kátar þegar þær komu til baka, fengu frjálsan tíma og þær sem vildu skelltu sér í sturtu. Í kvöldmat var boðið upp á ljúffengt lasagne og heimagert hrásalat á heimsmælikvarða. Eftir matinn var aftur frjáls tími, sem leggst vel í stúlkurnar sem hafa heldur betur ýmislegt að dunda og brasa.
Það var fjör á kvöldvökunni, sungið og dansað. Tvö herbergi stigu á stokk í kvöld, sýndu hvort um sig eitt atriði og buðu upp á einn leik. Hugleiðing frá foringja innihélt dæmisöguna „Að brýna öxlina“, sem minnir á mikilvægi þess að endurnæra sjálfa sig og passa vel upp á sig. Það opnaði á líflegt spjall við hópinn þar sem stelpurnar komu með sínar tillögur að því hvað þær gera til að næra sig. Undir lok kvöldvökunnar kom einn foringinn syngjandi hástöfum inn og tilkynnti að nú færum við út í brekkusöng. Stelpurnar þustu út í ljúft kvöldlognið og komu sér vel fyrir í lautinni, og það var svo mikil fjör í sumum að þær skemmtu sér konunglega við að rúlla sér niður brekkuna. Þá var óvænt boðið upp á frostpinna, og margar töluðu um inná bænaherbergi skömmu síðar að þetta hefði verið þeirra uppáhaldsstund í dag. Þegar þær komu inn gátu þær sem vildu fengið sér banana, og svo beinustu leið í tannburstun og náttföt.
Þá er annar dagur að kvöldi kominn og alveg hreint dásamlegt að finna hvað við erum allar að kynnast betur. Í dag lét heimþrá á sér kræla hjá nokkrum í hópnum og voru stelpurnar duglegar að leita til okkar starfsfólksins til að fá kjark og stuðning. Söknuður – þessi kröftuga tilfinning sem minnir okkur á hvað við elskum mikið og hvað það er sem er okkur dýrmætast! Það er fallegt að sjá hvað stelpurnar passa vel hver uppá aðra þegar erfið augnablik kvikna, og kjarkurinn eykst í hópnum eftir því sem þær kynnast betur innbyrðis, okkur starfsfólkinu og staðnum öllum.
Við þökkum fyrir okkur og bjóðum góða nótt,
Áróra