Vá! Þá er flokkurinn meira en hálfnaður og eins og við séum búnar að vera saman í þrjár vikur, því við erum búnar að gera svo margt og kynnast svo vel!
Morguninn leið sinn vanagang, tónlist frá foringja til að vekja hópinn, græja sig fyrir daginn og halda í morgunverðarhlaðborð. Borðbæn, fánahylling og tiltekt í herbergjum. Stelpurnar eru komnar vel upp á lagið í tiltektinni og eru snöggar að gera hreint og fínt hjá sér. Á Biblíulestri sungum við saman og forstöðukona las söguna „Þú ert frábær“, sem minnir okkur á að mannshugurinn hefur ríka tilhneigingu til að dæma. Dæma hvað er gott, dæma hvað er vont, og við gerum þetta bæði við okkur sjálf og aðra. Setjum stimpla eða límmiða á okkur og aðra, sem eru ekki endilega sannir en geta samt valdið miklum sársauka og hugarangri. Þá er gott að muna að við getum alltaf dvalið í kyrrðinni sem býr í eigin hjarta, til að minna okkur á að við erum í lagi eins og við erum og eigum alltaf skjól í trúnni. Og stundum er gott að ræða við aðra og fá þeirra hjálp til að minna okkur á að við erum svo sannarlega elskuverðar! Að því sögðu vöfðum við allar örmum um okkur sjálfar, knúsuðum okkur innilega og sögðumst vera frábærar, knúsuðum sessunautinn ef samþykki var til og sögðum hvorri annarri að við værum frábærar. Þá var kominn tími til að skella sér í brennókeppni dagsins, og ruku stelpurnar af stað. Sumar skemmta sér svo vel í brennó að þær nýta flesta frítíma til að leika sér í íþróttahúsinu.
Stelpurnar fengu smá frían tíma áður en kallað var í hádegismat, en í dag var boðið upp á grjónagraut og brauð. Það sló heldur betur í gegn og matarlystin var góð. Eftir mat var frítími þar til kallað var inn í næstu dagsskrá, sem var útí íþróttahúsi. Þar voru foringjarnir búnir að undirbúa málningar listasmiðju, þar sem þær gátu valið um alla regnbogans liti af akrýlmálningu sem þær settu hver í sinn eggjabakkan og gátu litablandað. Í boði voru mismunandi stærðir af pappírs kartoni til að mála á og svo var hægt að nota málningarteip til að búa til ramma og rendur á pappírs örkina og líka búa til stimpla úr kartöflum. Kynntar voru nokkrar mismunandi leiðir til að vinna með málaralist; s.s. að mála eftirlíkingu af einhverju í umhverfinu, mála eitthvað sem maður skapar í ímyndunaraflinu eða fylgja innsæinu og leyfa verkinu að birta sig penslastroku fyrir penslastroku. Öll sem ein sökktu þær sér í verkefnið og byrjaði salurinn fljótt að fyllast af litríkum listaverkum. Undirritaðri votnaði um augun, því þetta er það fallegasta. Að sjá þær gleyma sér alveg í eigin sköpunarverki, allar saman en hver á sinn hátt. Ómetanlegt!
Á meðan vinnustofunni stóð var eitt herbergi í einu kallað aftur inn í hús, þar sem foringi tók á móti stúlkunum með sneið af súkkulaðiköku og smjörkremi í nokkrum litum því nú var komið að…. Kökuskreytingu! Það var mjög notalegt fyrir stelpurnar að fá að stíga aðeins út fyrir stóra hópinn og dunda saman með smærri hóp, áður þær fóru aftur inn í málningarsmiðjuna.
Stúlka í flokknum á afmæli í dag þ.a. í kaffinu var afmælisveisla. Veifur höfðu verið hengdar í loftið, afmælisbarnið stóð upp á stól og hópurinn gaf henni vina-regn, þar sem allir kölluðu til hennar falleg orð um hennar einstöku nærveru. Svo var afmælissöngurinn sunginn, afmælisbarnið blés á kertin og foringi þeytti lúður. Í afmælisveislunni var boðið upp á pítsasnúða og að sjálfsöðgu kökurnar sem stelpurnar höfðu skreytt sjálfar. Sumar ætluðu varla að tíma því að borða kökuna sína því þeim fannst hún svo flott. Næst á dagsskrá var fjallganga meðfram fjallsrótunum og að stórum steini. Þar var staldrað við, leikið og elt nokkrar kindur, áður en snúið var til baka í frjálsan tíma og undirbúning fyrir kvöldvöku-atriði. Þær voru einstaklega hressar og frískar þegar þær komu til baka og höfðu greinilega gott af leiðangrinum.
Í kvöldmat var boðið upp á burrito og það voru dömurnar hæstánægðar með og borðuðu af bestu lyst! Eftir mat var frjáls tími og það er unun að sjá að með hverjum deginum verða stelpurnar öruggari í eigin skinni, leika meira saman á milli herbergja, kynnast nýjum vinkonum og eru spenntar að fá að njóta tímans saman. Á kvöldvökunni var þétt stemning, kröftugur söngur og skemmtileg atriði frá síðustu tveimur herbergjunum. Hugvekja foringja snart stelpurnar, en hún fjallaði um það hvernig góði hirðirinn mun alltaf leita lambanna sinna ef eitthvert þeirra týnist, því það er ávallt velkomið í Guðs faðm. Sama hversu mikið við villumst í lífinu þá er alltaf leið heim í hjartað og tækifærið að feta okkar sönnu leið. Eftir hugvekjuna varpaði einn foringinn óvænt myndsímtali við bakarann upp á skjá, en bakarinn var niðri í eldhúsi og sagði stelpunum að hún væri búin að vera sko aaaalveg á FULLU að búa til heitt kakó og kókoskúlur, og það væri bara eeeenginn kominn! Stelpurnar æptu upp fyrir sig og ruku niður í matsal, þar sem foringjarnir voru búnir að breyta matsalnum í huggulegt kaffihús. Ljósin voru slökkt, dregið fyrir gluggana og á borðunum voru fljótandi kertaskreytingar. Búið var að breyta veggjum matsalarins í listasýningu, því öll málverkin sem stelpurnar máluðu fyrr í dag voru komin upp á vegg – og það var ekkert smáræði! Salurinn er einstaklega huggulegur núna og nú eiga þær meira í honum fyrst þær hafa fengið að setja sitt mark á rýmið. Stelpurnar nutu þess að drekka heitt kakó og borða desert. Bakarinn kom og sagði sögu og foringjarnir léku orðalaust, en ekki hljóðalaust, með. Salurinn ærðist úr hlátri, enda eru leik- og fíflagangshæfileikar starfsfólksins í Ölver á heimsmælikvarða og Ölvers-leikritin hafa staðist tímans tönn og þreytast aldrei. Að leikriti loknu voru ljósin kveikt og stelpunum boðið að ganga um salinn og skoða listasýninguna. Það var mikið fjör í hópnum þegar þær fóru að undirbúa sig fyrir háttinn og greinilegt að þeim fannst gaman í dag. Sem betur fer voru þær að koma snemma inn á bænaherbergi þ.a. þær fengu góðan tíma til að fara í leiki, spjalla, segja sögur og skemmta sér með sínum bænakonum. Oft eiga stelpurnar sínar mestu gæðastundir inná herbergi fyrir svefninn.
Hvílíkur dagur, fjörið og uppátækin. Stelpurnar eru í skýjunum, það örlar ekki lengur á neinni heimþrá og allar búnar að finna styrkinn sinn. Sumar eru að koma í sumarbúðir í fyrsta skipti og upplifunin mikil lífsreynsla. Það er stórkostlegt undur að fá að vera vitni og taka þátt í ferlinu þar sem þær spreyta sig, vaxa og dafna.
Kátar kveðjur til ykkar frá Ölveri,
Áróra